Leikarinn Þorvaldur Davíð Kristjánsson vinnur að jólaplötu sem kemur út fyrir jólin. Platan heitir Jólin! það hlakka til nema ég og Þorvaldur vinnur hana ásamt hljómsveitinni Skafrenningarnir.
Á plötunni bregður Þorvaldur Davíð sér í hlutverk seinheppins djasssöngvara sem tekur jólunum passlega fagnandi. Um er að ræða jólaplötu með lögum sem tónlistamaðurinn Chet Baker er þekktur fyrir að flytja en textana semur Eiríkur Sördal.
Í samtali við Nútíman segir Þorvaldur Davíð hugmyndina hafi orðið til á Ítalíu sumarið 2015 þegar hann og Birgir Steinn Theodorsson, vinur hans og kontrabassaleikari hljómsveitarinnar, lágu við sundlaugarbakkann að raula lög.
„Af einhverri ástæðu þá vorum við svo farnir að syngja gömul jólalög en þess má til gamans geta að lagið White Christmas er talið hafa vera samið í steikjandi hita og sól í Kaliforníu,“ segir Þorvaldur Davíð.
Menn leita oft í andstæðurnar sjáðu til, dreyma um það sem þeir hafa ekki.
Þorvaldur segir hugmyndina ekki hafa farið á flug fyrr en komið var til Íslands. „Ég hafði svo samband við vin minn og ofurmanninn Eirik Sördal og bar undir hann hugmyndina að okkur langaði að prófa að fara jafnvel í stúdíó að gamni og taka upp eitt, tvö lög.“
Hugmyndin varð að plötu sem kemur út um jólin en hún er búin að vera ár í vinnslu. Þeir félagar safna nú fyrir framleiðslu plötunnar á Karolina Fund. Tíu prósent af hverju seldu eintaki plötunar rennur til Krafts sem er stuðningsfélag fyrir ungt fókk með krabbamein og aðstandendur þeirra.
„Ég sjálfur er lítið jólabarn,“ segir Þorvaldur Davíð og nefnir að fólk þurfi ekki að hafa gaman af jólunum til þess að hafa gaman af plötunni.