Jasmina Crnac, frambjóðandi Bjartrar framtíðar í Suðurkjördæmi, skráði sig óvart á Tinder þegar hún ætlaði að vera dugleg að koma sér á framfæri á samfélagsmiðlum vegna kosningabaráttunnar.
DV greindi fyrst frá en Jasmina fjallar um atvikið á Facebook-síðu sinni.
Hún segist hafa heyrt aðra frambjóðendur tala um að mikilvægt væri að vera virkur á samfélagsmiðlum. Hún prófaði fyrst Twitter er fannst það ekki nógu spennandi. Hún fann appið Tinder og skráði sig inn á það, hæstánægð með að vera að prófa eitthvað nýtt. Skyndilega fór hún að fá „pot“ á Facebook frá „myndarlegum karlmönnum“.
Sjá einnig: Framsóknarflokkurinn notar Tinder til að ná til kjósenda
„Ég verð náttúrulega hissa en held samt áfram að vinna í því sem ég var að gera,“ skrifar hún. Fékk hún líka einkaskilaboð þar sem hún var kölluð „Sæta, sæta.“
Hún vakti eiginmann sinn um miðja nótt til að spyrja hann um þetta og leitaði síðan ráða hjá nítján ára dóttur sinni.
„Hún segir að þetta sé datesíða. HAHAHAHAHA… dreptu mig ekki! Haldið þið að konan sé ekki búin að skrá sig á datesíðuna TINDER…. og komin á séns,“ skrifar Jasmina.
Myndin sem hún notaði á Tinder var prófílmynd hennar á Facebook þar sem á stendur X-A, fyrir Bjarta framtíð.
Eyddi hún prófílnum og appinu hið snarasta og tilkynnti kosningastjóranum að hún þyrfti líklega að bregðast við umfjöllun um að fjögurra barna gift móðir og frambjóðandi flokksins væri að stunda Tinder.
„Það er gott að geta hlegið að þessu, ég hef alveg húmor fyrir þessu,“ segir Jasmina í samtali við Nútímann um málið.