Auglýsing

Hefur þú knúsað unglinginn þinn í dag? Þörf fyrir snertingu og nánd minnkar ekkert með aldrinum

Smábörn eru knúsuð margoft á dag. Það er ekki annað hægt. Þau eru svo krúttleg, og alltaf að reyna að skríða upp í fangið á manni. Þau biðja skammlaust um það sem þau þarfnast – hlýju og líkamlega snertingu. Tilfinning öryggis, viðurkenningar og samkenndar er þeim mikilvæg og við sýnum þeim hana með viðmóti, orðum og þessari mikilvægu snertingu. Og við vitum alveg af hverju. Því við erum öll forrituð með þessa þörf, mismikla þó.

En hvað gerist þegar litla krúttið stækkar og rúmast ekki lengur í fanginu? Hversu oft knúsar þú unglinginn þinn? Það vill nefnilega henda að nándin minnki, knúsunum fækki og blíðuorðunum líka. Ekki beint viljandi – en það bara gerist.

Mögulega er það vegna þess að sumir unglingar verða sjúklega vandræðalegir með allt sem hefur að gera með líkamlega snertingu, hrós eða blíðuhót. Sérstaklega fyrir framan aðra. Og ekki viljum við auka á vandræðaganginn. Svo afturhald á knússsviðinu getur verið vegna meðvirkni með þeirra eigin tilvistarkrumpi.

En unglingarnir þurfa knúsið. Og eiginlega er þörf þeirra meiri en nokkru sinni. Munið þið bara hvað það var sjúklega erfitt að vera unglingur og vera til? Svo ferlega margt í gangi! Þó margir kunni ekki að orða knúsþörfina sína eða biðja um það sem þau þarfnast þá getum við komið til móts við þau.

Og því skal til haga haldið að sumir segja að ef unglingar fái ekki nándina sem þau þurfa heima hjá sér þá fari þau að leita leiða til þess að bæta sér hana upp einhvers staðar annars staðar.

Svo hér eru nokkrar hugmyndir í sarpinn.

  •  náðu augnsambandi, það er grundvallaratriði en getur tekið tíma.
  •  láttu fallega hugsun eða orð fylgja snertingunni.
  •  haltu faðmlaginu sekúndu lengur en þú gerir vanalega.
  •  kysstu ofan á kollinn á þeim, t.d. við matarborðið eða þegar þau eru í símanum.
  •  fingurkoss er enginn glæpur.
  •  bjóddu unglingnum þínum fóta-, handa- eða axlanudd. Það er ekki hægt að hata það.
  •  leggðu lófann á öxlina og kreistu smá – bara til að sýna að þú sért þarna.
  •  bjóddu high-five, þó þeim finnist það kannski leim. Það er líka snerting.
  •  vandaðu þig þegar aðrir sjá til, sérstaklega jafningjar. Það getur krumpað fólk heilmikið ef það á ekki von á snertingu/blíðyrði eða hrósi að þurfa að taka slíku fyrir framan aðra.
  •  ekki gefast upp þó þetta sé vandræðalegt í fyrstu skiptin.

Ef það er spenna eða drama í andrúmsloftinu er mjög góð leið að stinga upp á gönguferð. Bara tvö/tveir/tvær í stuttan labbitúr og helst á hlutlausum stað út í náttúrunni. Á göngu ertu ekki í beinu augnsambandi, og því minnkar það kröfuna á samskiptin. Líkamlega hefur þú tilhneigingu til þess að vera í takti – t.d. með því að halda sama gönguhraða, vera bókstaflega samstíga sem er öllu jöfnu ekki sjálfsagt. Hreyfingin losar um spennu og veitir vellíðan. Og þið eruð ekki inn á heimilinu, þ.e. í friði frá öðrum (líka frá símum og öðru áreiti) og ekki á heimavelli neins. Allir kunna að meta nánd og trúnað en við höfum ekki alltaf bestu aðstæður til þess að sýna slíkt. Góður göngutúr getur gert kraftaverk.

Gerum svo bara knúsin að sjálfsögðum hlut, á öllum aldursskeiðum. Þau eru ókeypis, fljótleg og auðveld í framkvæmd, þau styrkja sambönd, brúa bil og bæta geðið hjá öllum.

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing