Tveir öryggisverðir komu Örnu Ýri Jónsdóttur til bjargar á hóteli í Las Vegas í Bandaríkjunum í gær þegar eigendur keppninnar Miss Grand International neituðu að afhenda henni vegabréf hennar. Litlu munaði að lögregla yrði kölluð á svæðið.
Sjá einnig: Ókunnug kona kom Örnu Ýri til bjargar, greiddi flugið heim þegar hún heyrði af veseninu í Las Vegas
Arna Ýr hefur verið dugleg að veita fylgendum sínum á Snapchat innsýn inn í líf sitt síðustu daga. Gengið hefur á ýmsu og í gær þurfti hún að fá vegabréfið þar sem hún fer með flugi heim til Íslands í dag. Flugfélagið WOW air hafði samband við hana og buðu henni að fljúga fyrr heim en áætlað var.
„Ef þau reyna eitthvað meira við mig mun ég jarða keppnina og ég get það,“ sagði Arna Ýr þegar í ljós kom að hún yrði að fara sjálf á hótelið og sækja passann. Hjónin sem hún hefur gist hjá eftir að hún yfirgaf hótelið og keppnina fóru með henni og aðstoðuðu hana.
„Hjartað er á trilljón en ég ætla að græja þetta,“ sagði Arna Ýr þegar hún var mætt á hótelið. Framundan voru deilur við umboðsmann hennar og eigendur keppninnar. Farið var fram á að hún myndi greiða 3.000 bandaríkjadali, eða sem nemur rúmlega 344 þúsund íslenskum krónum.
Öryggisverðirnir útskýrðu fyrir eigendum keppninnar að það væri ólöglegt að halda vegabréfinu hennar eftir. Þau sögðust þau ekki vera að gera, þau sögðust „aðeins“ vilja að hún greiddi þeim fjárhæðina áður en hún fengi vegabréfið.
„Ég er með fréttir, passi! Í alvörunni, það voru átök,“ sagði himinlifandi Arna Ýr þegar hún var komin út af hótelinu.
Hún heldur heim í kvöld og lendir á Íslandi í fyrramálið.
„Allt þetta brjálæði er loksins á enda, ég hef aldrei verið jafn stressuð og liðið illa í lífinu,“ sagði Arna Ýr. „Þið vitið ekki hvað mér líður vel, mér líður eins og ég hafi hætt á toppi tilverunnar í þessum bransa.“