Um hvað snýst málið?
Stærðfræðimenntun Smára McCarthy, frambjóðanda Pírata í Suðurkjördæmi, hefur verið til umræðu. Smári er sakaður um að skreyta sig með stolnum fjöðrum með því að kalla sig stærðfræðing en sjálfur segist hann aldrei hafa gert slíkt — hann hafi aldrei lokið námi en segist ekki hafa átt mikið eftir.
Hvað er búið að gerast?
Sigrún Helga Lund, dósent í tölfræði við Háskóla Íslands og frambjóðandi Viðreisnar í Reykjavíkurkjördæmi suður, spyr Smára í athugasemd á Facebook, hvernig hann getur sagt að hann hafi átt lítið eftir til að klára stærðfræði.
„Ég veit ekki betur en að þú hafir aldrei klárað svo mikið sem fyrstu önnina,“ segir hún og sakar Smára um að „bulla um stærðfræði á Wikipedia“ þrátt fyrir að hafa „kolfallið í þeim kúrsum sem viðkomandi efni fjallaði um.“
Loks segir hún ófáa stærðfræðikennara hafa blótað Smára í sand og ösku vegna ranghugmynda nemenda eftir að lesið rangfærslur hans á Wikipedia.
Smári segir þetta ekki rétt hjá Sigrúnu þar sem hann hafi klárað helming námsins. „Ég var í þessu námi í tvö og hálft ár en náði svosem ekki alltaf að klára allt og eitthvað sem út af stóð,“ segir hann á Eyjunni.
Hvað gerist næst?
Kosningar fara fram á laugardag.
Örskýringar eru 200 orða fréttaskýringar Nútímans um mál sem mikið er fjallað um. Sendu okkur póst ef þú ert með hugmynd að örskýringu.