Fjölmennt lið lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu ásamt sérsveitarmönnum frá Ríkislögreglustjóra lokuðu öllum leiðum inn og út úr Bryggjuhverfinu í Grafarvogi um klukkan tíu í gærkvöldi.
Stundin greinir frá þessu en vitni sem fjölmiðillinn ræddi við segir að lögreglumenn hafi leitað að vopnuðum karlmanni í Adidas-galla.
Valgarður Valgarðsson, aðalvarðstjóri hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, staðfestir í samtali við Stundina að lögregluaðgerð hafi átt sér stað í Bryggjuhverfinu í gærkvöldi.
Umrætt vitni sagði lögregluaðgerðina hafa staðið í nokkrar klukkustundir. Lögreglan hafi verið búin að loka hverfinu um tíuleitið í gærkvöldi og um klukkan tvö í nótt voru lögreglumenn enn á „vappi um svæðið“ eins og hann orðaði það. Þeir hafi verið vopnaðir og gráir fyrir járnum.
Stundin náði tali af stöðvarstjóranum Kristjáni Ólafi Guðnasyni en hann hefur umsjón með málinu hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu. Hann segir rannsókn þess enn í gangi.
mbl.is greinir frá því að einn maður hafi verið handtekinn laust eftir miðnætti. Kristján Ólafur staðfestir í samtali við mbl.is að viðbúnaður hafi verið íg ærkvöldi vegna hótana og vopnaðs manns.