Manuela Ósk hefur hannað nýja úlpu í samstarfi við Zo-On og var hún frumsýnd á föstudagskvöld í verslun Zo-On í Kringlunni. Þar var einnig sýndur fyrsti þátturinn af Hannað með Zo-On sem verður á dagskrá Stöðvar 2 á miðvikudagskvöldum í nóvember. Í þættinum er fylgst með hönnun úlpunnar.
Fjöldi fólks kíkti í partíið og Manuela var mætt í úlpunni
Manuela útskrifaðist úr fatahönnunardeild Listaháskóla Íslands síðastliðið vor en er flutt til Los Angeles þar sem hún leggur stund á framhaldsnám við Fashion Institute of Design and Merchandising.
Í Fréttatímanum á dögunum sagði hún námið lofa góðu og telur sig vera á réttri hillu. Reynsla hennar af samfélagsmiðlum reynist henni vel í náminu en það er ákveðin pressa frá skólanum að nemendur séu virkir á sem flestum miðlum.
„Þau vilja til dæmis að við séum með bloggsíðu og Youtube-rás. Ég þarf því aðeins að fara að girða mig í brók,“ sagði Manuela. Hún lét nýlega undan pressu með bloggsíðu og opnaði síðuna heymanu.com.