Auglýsing

Kala Brown fannst hlekkjuð inni í gámi eftir að hafa verið týnd í tvo mánuði, kærastinn enn ófundinn

Kala Brown, sem saknað hefur verið frá 31. ágúst ásamt kærasta sínum Charlie Carver, fannst á lífi í gær. Hún var innilokuð og hlekkjuð í læstum gámi í bænum Woodruff í Suður-Karólínu.

Hvarf parsins þótti heldur dularfullt. Þau höfðu mælt sér mót við vinkonu Brown en skiluðu sér ekki þangað. Bíll þeirra var ekki við heimili þeirra, dyrnar á húsinu voru ólæstar og lyfseðilsskyld lyf sem þau tóku höfðu verið skilin eftir.

Sjá einnig: Ekkert hefur sést til pars í einn og hálfan mánuð, einhver deilir stöðugt efni á Facebook-síðu mannsins

Lögregla fór að landareign Todds Kohlhepps, sem er skráður kynferðisbrotamaður, í gær til að gera þar húsleit. Þegar Brown varð vör við umgang fyrir utan gáminn hrópaði hún á hjálp.

Þegar lögregla opnaði gáminn kom Brown í ljós, hlekkjuð við gáminn. Keðjan sem notuð var til að halda henni var um háls hennar. Hún sagðist hafa verið í gámnum í tvo mánuði og telur að lík fjögurra manna gæti verið að finna á jörð Kohlhepps.

Bíll parsins fannst á jörðinni eftir nokkra leit en Carver hefur ekki komið í leitirnar. Kohlhepp var handtekinn en hefur ekki verið samvinnuþýður við lögreglu.

Aðstæður í gámnum voru vægast sagt hræðilegar. Þar var engin lýsing, engir gluggar og ekkert loftflæði. Heitt hefur verið í Suður-Kalíforníu að undanförnu. Brown fékk mat og vatn tvisvar á dag.

Talið er að parið hafi þekkt Kohlhepp en ekki liggur fyrir hver tengsl þeirra eru. Hann býr ekki á jörðinni en þar er þó að finna húsnæði.

Málið varð enn dularfyllra eftir að hjúskaparstöðu Carver var breytt á Facebook en þar kom fram að þau Brown hefðu gengið í hjónaband 1. september. Viku síðar birtist stutt skilaboð á Facebook-síðunni þar sem kom fram að parið væri heilt á húfi. Skilaboðunum var síðar eytt.

Þetta kom vinum hans og fjölskyldu á óvart þar sem hann hefur ekki verið duglegur að nota Facebook síðustu ár.

Skyndilega var eins og síðan hefði verið hökkuð þar sem sífellt var verið að deila skilaboðum og myndum á vegg Carvers. Við fyrstu sýn virtist þetta vera ruslpóstur en þegar málið var skoðað nánar mátti sjá að margt efnið tengdist parinu. Þá hafa vinir Charlie einnig fengið skilaboð frá honum, eða þeim sem deilir efni í hans nafni.

„Við erum bæði í lagi. Það er aðeins ein manneskja sem veit hvar við erum,“ sagði í einum skilaboðum til vina hans. Þar sagði einnig að þetta yrði þannig áfram.

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing