Auglýsing

Fjórir í gæsluvarðhald vegna íkveikju á húðflúrstofunni Immortal Art, eigendunum hótað

Fimm manns voru handteknir í gær og fjórir þeirra úrskurðaðir í gæsluvarðhald í gærkvöldi í eina viku vegna gruns um að tengjast íkveikju á húðflúrstofunni Immortal Art í Dalshrauni í Hafnarfirði aðfaranótt þriðjudags.

Rúða var brotin og einhvers konar sprengju hent inn um glugga um nóttina með þeim afleiðingum að það kviknaði í iðnaðarhúsnæðinu. Eldurinn kom upp á snyrtistofu í húsinu og var mikill eldur þar inni þegar slökkvilið kom á staðinn.

Lögregla taldi að ekki hafi verið um heimatilbúna sprengju að ræða, heldur tívolíbombu.

Eigendum stofunnar bárust hótanir áður en þau opnuðu staðinn. Hann hafði aðeins verið opinn í einn dag þegar kveikt var í staðnum. Lögregla staðfesti að tengsl væru á milli eldsvoðans og hótananna.

Meint ástæða hótananna var sú að fæla eigendur Immortal Ink frá því að stofna fyrirtækið og þar með koma í veg fyrir samkeppni. Annar eigandinn vann áður á annarri húðflúrstofu en ákvað fyrir nokkru að hætta og stofna sitt eigið fyrirtæki.

Sjö húsleitir voru gerðar í tengslum við handtökurnar í gær og hald lagt á töluvert af gögnum. Sérsveitin aðstoðaði við húsleitirnar.

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing