Auglýsing

Greiðslur til Zúista dragast enn, kæra fyrrverandi forsvarsmanna trúfélagsins tefja greiðslur

Endurgreiðsla sóknargjalda innan trúfélags Zúista mun dragast en áður hafði verið áætlað að greiða þau út í þessum mánuði.

Þetta kemur fram í tilkynningu á Facebook-síðu trúfélagsins sem birt var í kvöld en hún kemur frá öldungaráði Zúista.

Þar segir að hjá innanríkisráðuneytinu sé til meðferðar mál sem varðar framkvæmd stjórnarskipta trúfélags Zúista á síðasta ári, en síðastliðið vor kærðu fyrrverandi forsvarsmenn félagsins ákvörðun stjórnvalda um skipan nýrra forsvarsmanna.

Í lok júní á þessu ári kom fram að skráðir  forsvarsmenn rekstrarfélagsins Zuism hefðu höfðað mál á hendur Ríkissjóði Íslands til greiðslu sóknargjalda. Ekki er um sömu aðila að ræða og svara nú fyrir trúfélag zúista og hafa lofað því að endurgreiða öllum félagsmönnum sóknargjöld sín, alls um 35 milljónir króna.

„Ætlun okkar var að hefja endurgreiðslu sóknargjalda í þessum mánuði en sökum þess að úrskurður liggur enn ekki fyrir hjá ráðuneytinu mun það því miður dragast um sinn. Verið er að vinna í málinu og við munum greina frá því hér þegar niðurstaða hefur fengist.

Að öðru leyti eru áform okkar óbreytt og krafa okkar um breytingar á trúfélagakerfinu stendur. Við bendum á að 1. desember nálgast en trúfélagsskráning einstaklinga þann dag ákvarðar til hvaða trúfélags sóknargjöld þeirra renna árið eftir. Rétt er að nefna að andvirði sóknargjalda þeirra sem standa utan trúfélaga renna ekki til Háskóla Íslands heldur greiða þeir hlutfallslega meira til samneyslunnar,“ segir í tilkynningunni sem birt var í kvöld.

Öldungaráðið hvetur alla til að yfirfara skráningu sína fyrir næstu mánaðarmót.

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing