Um hvað snýst málið?
Fyrrverandi og núverandi forsvarsmenn trúfélags Zúista á Íslandi deila nú um hver eigi rétt á rúmlega 33 milljóna króna sóknargjöldum félagsins. Núverandi forsvarsmenn hafa lofað að endurgreiða meðlimum trúfélagsins sóknargjöldin.
Hvað er búið að gerast?
Trúfélagið Zuism fékk formlega skráningu árið 2013. Rekstrarfélag var stofnað og árið 2014 voru skráðir meðlimir í trúfélagið þrír. Samkvæmt Fjársýslu ríkisins fékk félagið greidd sóknargjöld upp 27 þúsund krónur frá ríkissjóði árið 2014.
Bræðurnir Ágúst Arnar og Einar Ágústssynir voru í forsvari fyrir trúfélagið. Í dag eru þeir grunaðir um fjármunabrot og Fréttablaðið greinir frá því að þeir hafi verið til rannsóknar héraðssaksóknara, áður sérstaks saksóknara.
Árið 2014 tók í gildi reglugerð um að það þurfi að lágmarki 25 meðlimi svo heimilt sé að skrá trúfélag eða lífskoðunarfélag.
Í apríl í fyrra skoraði sýslumaðurinn á Norðurlandi eystra á þá sem telja sig veita trúfélaginu Zuism forstöðu eða sitja í stjórn þess að gefa sig fram. Þar sem meðlimir í Zuism voru aðeins þrír stóð til að leggja félagið niður en enginn hafði svarað kalli sýslumanns þegar Vísir greindi frá málinu viku eftir að áskorunin var birt í Lögbirtingablaðinu.
Í nóvember árið 2015 kom svo í ljós að núverandi forsvarsmenn höfðu svarað kalli sýslumannsins og tekið yfir trúfélagið. Þeir útveguðu félaginu 40 nýja meðlimi og í viðtali á Eyjunni sagði stjórnarmaðurinn Snæbjörn Guðmundsson upprunalega stofnendur hafa skorið á öll tengsl við félagið.
Ný stjórn hét því að endurgreiða sóknargjöld til meðlima og í kjölfarið varð Zuism eitt stærsta trúfélag landsins. Í dag eru skráðir meðlimir 3.087 talsins, samkvæmt vef Hagstofunnar.
Í kjölfarið sneru bræðurnir Ágúst og Einar aftur. Heimildir Vísi herma að þeir telji sig enn vera í forsvari fyrir rekstrarfélag Zuism og hafa þeir höfðað mál á hendur Ríkissjóði Íslands til að fá greidd sóknargjöld til félagsins, sem núverandi forvarsmenn vilja endurgreiða meðlimum.
Hvað gerist næst?
Innanríkisráðuneytið hefur málið til meðferðar. Ef ef fyrrverandi forsvarsmönnum trúfélagsins verður úrskurðað í hag eru milljónirnir 33 þeirra. Núverandi forsvarsmenn höfðu stefnt á að greiða út sóknargjöld í nóvember.
Örskýringar eru 200 orða fréttaskýringar Nútímans um mál sem mikið er fjallað um. Sendu okkur póst ef þú ert með hugmynd að örskýringu.