Þorsteinn Víglundsson, þingmaður Viðreisnar, segir að það yrði flokknum mjög erfitt að kyngja miklum skattahækkunum.
Hann segir að byrja þurfi á að skoða hvaða hugmyndir flokkarnir fimm, sem reyna nú að mynda ríkisstjórn, hafa um útgjöld og útgjaldaaukningu á kjörtímabilinu og síðan sé hægt að skoða hvort nauðsynlegt sé að ráðast í stórfelldar skattahækkanir.
Þetta kom fram í Bítinu á Bylgjunni í morgun.
Þorsteinn var spurður hvort til greina kæmi hjá Viðreisn að fara inn í stjórnarsamstarf þar sem um skattahækkanir, að einhverju leyti, væri að ræða.
„Það yrði mjög erfitt hjá okkur að kyngja miklum skattahækkunum, það er alveg skýrt. Auðvitað liggur það fyrirfram ljós fyrir að þarna er mesti áherslumunurinn milli þessara flokka. Það er auðvitað alltaf þannig, þegar menn fara inn í svona samstarf, að það kannski best að byrja á réttum enda, það er að segja, hvaða hugmyndir eru aðilar um varðandi einstök útgjöld og útgjaldaaukningu á kjörtímabilinu, til dæmis til heilbrigðis og velferðarmála og hvernig getum við fjármagnað það, hvort við getum farið aðrar leiðir, hvort það sé nauðsynlegt að ráðast í stórfelldar skattahækkanir,“ sagði Þorsteinn.
Í Morgunblaðinu í dag er Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, sögð harðákvæðin í því að viðhalda hátekjuskatti, koma aftur á auðlegðarskatti og þá er hún sögð áhugasöm um hækkun fjármagnstekjuskatts.
Eru þessi áform sögð hljóta að reynast Viðreisn þung í skauti og kosta mikil átök í baklandi Viðreisnar.
Fréttablaðið ræddi í dag við þátttakendur í stjórnarmyndunarviðræðunum. Hafa þau áhyggjur af því að skattamálin muni reynast hvað erfiðust en hugmyndir VG um hátekjuskatt muni ekki verða vel tekið af Viðreisn.