Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, segir ekki rétt að flokkurinn hafi í hótunum við aðra flokka um stefnu flokksins í skattamálum í stjórnarmyndunarviðræðunum sem standa yfir.
Þetta segir hún í samtali við Vísi.
Í umfjöllun Morgunblaðsins í dag segir meðal annars: „Bent er á að ef VG ætli að standa við „hótanir sínar“ og ráðast í stórfelldar skattahækkanir hljóti slík áform að reynast Viðreisn þung í skauti og kosta mikil átök í baklandi Viðreisnar og áreiðanlega líka meðal einhverra sjö þingmanna Viðreisnar.
Katrín tjáir sig einnig um málið á Facebook-síðu sinni.
Þar segir hún meðal annars:
„Til þess að við getum ráðist í nauðsynlegar aðgerðir í heilbrigðismálum, menntamálum og til þess að leiðrétta kjör aldraðra og öryrkja þarf ríkissjóður auknar tekjur. Þessar tekjur viljum við tryggja með því að taka á skattsvikum sem varlega eru áætluð um 80 milljarðar á ári, með því að tryggja auknar tekjur af nýtingu sameiginlegra auðlinda þjóðarinnar og kanna möguleika á því að skattleggja fjármagnið sem þar er að finna. Þetta þýðir kerfisbreytingar í skattamálum sem færa skattbyrði af lág- og millitekjuhópum yfir á hátekjuhópa.“