Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, sagði í kvöldfréttum Stöðvar 2 í gærkvöldi að í ljós hafi komið eftir samtal við sérfræðinga að staðan í ríkisfjármálum sé þrengri en talið var og það muni hafa sín áhrif á viðræður um myndun ríkisstjórnar.
Katrín sagði að í ljós muni koma á næstu dögum hvort takist að ná málamiðlun á milli flokkanna varðandi skattamál.
Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra og þingmaður Sjálfstæðisflokksins, er ekki sammála
„Ég sé því haldið fram að staða ríkisfjármálanna sé þrengri en ,,búist var við“. Hvers vegna er fólk sem talar svona ekki látið svara fyrir það hvað átt er við?Getur verið að þetta sé ekkert annað en yfirvarp til að réttlæta nýja og hærri skatta? Frá mínum bæjardyrum séð er staðan betri en áður var gert ráð fyrir.
Alþingi afgreiddi bæði fjármálaáætlun og fjáraukalög á síðustu mánuðum. Þar er dregin upp skýr mynd af stöðunni. Það helsta sem hefur breyst er að nú horfir til þess að skattar og gjöld skili a.m.k. 10 milljörðum meira til ríkisins en áður var áætlað á næsta ári. Á móti voru réttindi aldraðra og öryrkja aukin töluvert undir lok þingstarfa.
Menn geta því ekki vísað í óvænta verri stöðu ríkisfjármála til að réttlæta skattahækkanir. Reyndar er alveg magnað að þegar við erum við hámark hagsveiflunnar sé verið að tala um þörf á nýjum sköttum til að auka útgjöld verulega,“ segir Bjarni á Facebook-síðu sinni.
Tekist á um skattamál við stjórnarmyndunarviðræður
Vinstri græn telja að það vanti 19 milljarða króna inn í heilbrigðiskerfið á næstu árum til viðbótar við ríkisfjármálaáætlun fráfarandi ríkisstjórnar Framsóknar og Sjálfstæðisflokks. Katrín Jakobsdóttir, formaður flokksins, segir að ekki standi til að hækka skatt á fólk með meðaltekjur.
Þetta kemur fram í Fréttablaðinu í dag.
„Við höfum talað fyrir hátekjuþrepi og miðuðum við eina og hálfa milljón í mánaðarlaun en erum algjörlega opin fyrir því að þau mörk geti legið ofar,“ segir Katrín og nefnir sem dæmi að til greina komi að skoða hátekjuskatt á fólk með yfir tvær milljónir í mánaðarlaun.
Hún segir að flokkurinn hafi einnig talað fyrir stóreignaskatti og þar sé horft til þeirra sem eiga mjög mikil auðæfi. „Það er alltaf meiri og meiri auður að safnast á færri hendur,“ segir hún í samtali við Fréttablaðið.
Katrín segir tvær ástæður vera fyrir því að Vinstri græn vilji leggjast í þessa skattheimtu.„Við töluðum fyrir því að fara í tekjuöflun til að setja þessar tekjur inn í heilbrigðiskerfið. Hins vegar snýst þetta svo líka um kerfisbreytingar til að auka jöfnuð,“ segir hún.