Um hvað snýst málið?
Karlmaður segir að honum hafi verið haldið gegn vilja sínum í íbúð í fjölbýlishúsi að Fellsmúla í Reykjavík í tvo sólarhringa.
Hvað er búið að gerast?
Maðurinn náði að sleppa út á svalir íbúðarinnar sem er á fjórðu hæð í Fellsmúla 9 eftir hádegi fimmtudaginn 1. desember.
Hann klifraði yfir á samliggjandi svalir og bankaði á glugga. Þar sem enginn var heima klifraði hann niður á svalir á hæðinni fyrir neðan en þar gat hann fengið að hringja í lögreglu.
Maðurinn var á nærbuxunum einum fata þegar hann fannst en hann var fluttur á sjúkrahús.
Tveir karlmenn voru handteknir fyrir utan fjölbýlishúsið en annar hafði reynt að flýja frá lögreglu. Þeir voru látnir lausir tæpum sólarhring síðar.
Lögregla leitaði að pari sem býr í íbúðinni þar sem maðurinn segir að sér hafi verið haldið, 22 ára konu og 26 ára karlmanni. Voru þau grunuð um að tengjast frelsissviptingunni.
Hvað gerist næst?
Konan gaf sig fram 2. desember en lögregla leitar enn að manninum. Hún var látin laus að lokinni yfirheyrslu.
Lögregla hefur ekki vilja gefa upp hvort fleiri sé leitað vegna málsins.
Örskýringar eru 200 orða fréttaskýringar Nútímans um mál sem mikið er fjallað um. Sendu okkur póst ef þú ert með hugmynd að örskýringu.