Auglýsing

Yngsti þingmaðurinn tekur ömmu sína með á þingsetninguna: „Hún er afskaplega spennt“

Alþingi kemur saman í fyrsta skipti í dag að loknum kosningum sem voru fyrir fimm vikum. Margir þingmannanna hefja störf á þinginu í fyrsta skipti og verður þetta eflaust spennandi dagur.

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir er yngsti þingmaðurinn sem tekur sæti á Alþingi í þetta skipti. Hún var kjörin fyrir Sjálfstæðisflokkinn í Reykjavíkurkjördæmi norður.

Hún ætlar ekki að taka með sér maka, líkt og margir aðrir þingmenn og embættismenn sem verða við athöfnina. Hún ætlar að taka ömmu sína, Elsu Pétursdóttur, með sér.

„Ég var í fjölskylduboði í síðustu viku þar sem þingstörfin mín bárust í tal og meðal annars þingsetningin. Þá heyrði ég á ömmu hversu merkilegt henni fannst þetta,“ segir Áslaug Arna í samtali við Nútímann.

Elsu fannst þingsetningin mest spennandi. „Ég ákvað því að bjóða henni með. Hún er afskaplega spennt og mun mæta uppbúin í Dómkirkjuna á eftir,“ segir Áslaug Arna.

Elsu þótti boðið of gott til að vera satt og var ekki viss um að barnabarnið væri í alvöru að bjóða henni með. „Í gær las ég svo fyrir hana hvernig athöfnin verður og hún er voðalega spennt,“ segir þingmaðurinn káti.

„Hún ber mikla virðingu fyrir þessum tímamótum og finnst æðislegt að fá að fylgja barnabarninu sínu til þingsetu. Ég tek auðvitað sæti mitt á Alþingi með miklu þakklæti og virðingu og mun gera mitt besta til að verðskulda það traust sem mér hefur verið sýnt,“ segir Áslaug Arna að lokum, spennt að mæta til þingsetningar kl. 13.30 í dag.

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing