Auglýsing

Hvernig er staðan í pólitíkinni eftir að síðasta tilraun til að mynda ríkisstjórn misheppnaðist?

Alþingiskosningar fóru fram 29. október og ríkisstjórn hefur ekki enn verið mynduð. En hvað er búið að gerast?

  • Bjarni Benediktsson fékk stjórnarmyndunarumboðið fyrstur og reyndi að mynda stjórn með Viðreisn og Bjartri framtíð. Það mistókst.
  • Katrín Jakobsdóttir fékk svo umboðið og reyndi að mynda stjórn með Pírötum, Viðreisn, Bjartri framtíð og Samfylkingu. Það mistókst. Hún reyndi svo að mynda stjórn með Sjálfstæðisflokknum og það mistókst líka.
  • Birgitta Jónsdóttir fékk umboðið næst og reyndi að mynda stjórn með VG, Viðreisn, Bjartri framtíð og Samfylkingu. Það mistókst.

En hver hefur útilokað hvern og hver hefur talað við hvern? Staðan er svona:

Sjálfstæðisflokkurinn (21 þingmaður) hefur ekki útilokað samstarf við neinn en hefur reynt að mynda stjórn með annars vegar Viðreisn og Bjartri framtíð og hins vegar Vinstri grænum og Framsókn. Tilraunirnar hafa misheppnast.

Vinstri græn (10 þingmenn) virtust útiloka samstarf við Sjálfstæðisflokkinn fyrir kosningar en hafa kannað samstarfsgrundvöll með flokknum eftir kosningar. Vinstri græn hafa einnig reynt að mynda fimm flokka stjórn með Pírötum, Viðreisn, Bjartri framtíð og Samfylkingu hins vegar án árangurs.

Píratar (10 þingmenn) hafa útilokað samstarf með Sjálfstæðisflokknum og Framsókn. Flokkurinn hefur árangurslaust reynt að mynda stjórn með VG, Viðreisn, Bjartri framtíð og Samfylkingu. Birgitta Jónsdóttir segir VG hafa „tekið sleggju og lamið í sundur brúna“ á milli flokkanna.

Framsókn (8 þingmenn) hefur ekki tekið þátt í formlegum stjórnarmyndunarviðræðum. Flokkurinn vill mynda stjórn með Sjálfstæðisflokknum og VG.

Viðreisn (7 þingmenn) hefur útlokað þriggja flokka samstarf með Sjálfstæðisflokknum og Framsókn. Flokkurinn hefur myndað bandalag með Bjartri framtíð og reynt að mynda stjórn með Sjálfstæðisflokknum án árangurs. Þá reyndi flokkurinn árangurslaust að taka mynda fimm flokka stjórn með VG, Pírötum, Bjartri framtíð og Samfylkingu.

Björt framtíð (4 þingmenn) hefur ekki útlokað samstarf við neinn flokk. Flokkurinn hefur tekið þátt í árangurslausum stjórnarmyndunarviðræðum með Sjálfstæðisflokknum og Viðreisn annars vegar og VG, Pírötum, Viðreisn og Samfylkingu hins vegar.

Samfylking (3 þingmenn) útlokaði samstarf með Sjálfstæðisflokknum fyrir kosningar og hefur tekið þátt í árangurslausum stjórnarmyndunarviðræðum með VG, Pírötum, Viðreisn og Bjartri framtíð.

Hvaða stjórnarmynstur (sem hefur ekki verið útilokað) á eftir að prófa?

  • Sjálfstæðisflokkur, Framsókn og VG eiga eftir að tala saman (39 þingmenn)

Aðrir virðast annað hvort hafa látið reyna á samstarf eða útilokað það algjörlega.

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing