Auglýsing

Fréttamaður RÚV tjáir sig um viðtalið við Sigmund Davíð, spurði aldrei um efni viðtalsins

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, þingmaður Framsóknarflokksins óskaði ekki eftir því að vita um hvað Sunna Valgerðardóttir, fréttamaður RÚV, vildi ræða við hann áður en hún hófst handa við að taka viðtal við hann á föstudaginn.

Hún segist hafa óskað eftir viðtali, engin viðbrögð fengið og því ákveðið að mæta á staðinn.

Viðtalið hefur vakið mikla athygli en þar spurði Sunna Sigmund Davíð út í fjarvistir hans á þingi í veislu sem hann hélt á Akureyri vegna aldarafmælis Framsóknarflokksins.

Hér má les hluta viðtalsins.

Fréttamaður spyr: „Alþingi kom saman, þú ert oddviti Framsóknarmanna í Norðausturkjördæmi, Alþingi kom saman sjötta desember, þú hefur ekkert mætt í vinnuna, hvers vegna ekki?“

Sigmundur Davíð svarar: „Sko, þessi viðtöl við þig, eiga þau öll að vera svona, á þessum nótum? Á 100 ára afmæli flokksins líka. Síðast baðstu mig um að veita þér viðtal á ákveðnum forsendum og það gekk ekki alveg eftir. Svo mætirðu hér í 100 ára afmæli og spyrð spurninga eins og þessara, á þetta bara að vera svona. Ekkert mætt í vinnuna? Hverskonar nálgun er þetta á viðtal?“

Fréttamaður RÚV: „Þú hefur ekki mætt  á Alþingi síðan það kom saman, það er eðlilegt að spyrja hversvegna ekki.“

Sigmundur Davíð: „Þá geturðu bara beðið mig um viðtal um það. Þú kemur ekki hingað og biður mig um viðtal um afmæli flokksins og kemur með útúrsnúninga eins og þetta.“

Sigmundur Davíð tjáði sig um viðtalið á Facebook-síðu sinni

Þar sagði hann meðal annars að „þráhyggja SDG-hópsins á RÚV“ virðist vera að ágerast frekar en hitt.

„Einn af forsprökkum þess hóps sá ástæðu til að ryðjast inn í 100 ára afmælisveislu með dónaskap og framgöngu sem ég hef ekki kynnst oft af hálfu fréttamanna,“ skrifaði hann.

Samkvæmt vef Alþingis er Sigmundur Davíð eini þingmaðurinn sem hefur ekki tekið þátt í neinum atkvæðagreiðslum eða öðrum þingstörfum frá því að Alþingi kom aftur saman eftir kosningar 29. október síðastliðinn.

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing