Jörðin Heiði í Skaftárhreppi er til sölu. Þar er meðal annars náttúruperlan Fjaðrárgljúfur sem komst í heimsfréttirnar eftir að Justin Bieber fékk sér sundsprett þar og birti mynd á nærbuxunum.
Sjá einnig: Loksins, loksins Justin Bieber birtir mynd af sér á nærbuxunum á Íslandi
Fasteignasalan sem annast sölu jarðarinnar notar meðal annars myndir af Bieber í gljúfrinu til að auglýsa hana. RÚV greindi fyrst frá.
Jörðin er til sölu hjá Fasteignamiðstöðinni.
„Jörðin er án alls húsakosts og er að mestu gróið land. Landstærð Heiðar er rúmlega 335 hektarar. Fjaðrarárgljúfur sem er mikil náttúruperla sem er vel sótt af ferðamönnum er á mörkum Heiðar og Holts. Mikil náttúrufegurð,“ segir um hana í auglýsingunni.
Sjálfur hefur Bieber fjarlægt myndirnar sem notaðar eru í auglýsingunni af Instagram-síðu sinni, en hann lokaði síðunni vegna óánægju með áreiti nettrölla og aðdáenda, líkt og kemur fram í frétt RÚV.