Nemendur og starfsmenn Mýrarhúsaskóla á Seltjarnarnesi upplifðu skrautlegan fyrsta skóladag ársins þegar þeir björguðu grænum Amazon páfagauki sem lenti á skólalóðinni. Páfagaukurinn heitir Jósteinn og hafði verið týndur síðan á gamlárskvöld. Hann fannst eftir að eigandi hans auglýsti eftir honum á Facebook-síðu íbúa Seltjarnarness.
Þetta var fyrsti vinnudagur Arnrúnar Bergljótardóttur í Mýrarhúsaskóla. Hún segir í samtali við Nútíman að fyrst um sinn hafi krakkarnir haldið að Jósteinn væri græn blaðra á flugi en að þau hafi svo áttað sig á að um páfagauk var að ræða. Þegar hann lenti á skólalóðinni tók Arnrún sig til og gómaði hann.
„Þetta var mjög skrautlegur fyrsti dagur,“ segir Arnrún.
Hann var orðinn nokkuð skítugur og svangur en annars var hann bara nokkuð hress. Við flautuðum smá saman og við gáfum honum agúrku. Krakkarnir voru mjög spenntir yfir þessu.
Guðný Rannveig Reynisdóttir, eigandi Jósteins, segist í samtali við Nútíman vera ótrúlega ánægð að hann hafi fundist þar sem hún var búin að gefa upp alla von um að hann myndi þrauka svona lengi.
„Ég var orðin viss um að hann væri farinn, þessi tegund af fuglum þolir ekki mikinn kulda,“ segir Guðný.
„Hann flaug út á gamlárskvöld en hann ætlaði sennilega að setjast á öxlina á krökkunum. Honum hefur brugðið vegna flugeldanna og flogið í burtu.“
Guðný segir ótrúlegt að hann hafi náð að þrauka í kuldanum og í öllum sprengingunum í þrjá daga. Hún vill þakka krökkum í Mýrarhúsaskóla og starfsfólki skólans fyrir að finna hann og sjá vel um hann.