Fjárfestirinn Birgir Þór Bieltvedt hefur selt hlut sinn í veitingastaðnum Hard Rock á Íslandi, sem opnaði í Lækjargötu í október. Birgir hvarf því úr eigendahópnum aðeins nokkrum vikum eftir að staðurinn opnaði en hann segist þurfa að einbeita sér að uppbyggingu Domino’s á Norðurlöndunum. Þetta kemur fram í Morgunblaðinu í dag.
Birgir er einn eigenda Domino’s á Íslandi, Noregi og Svíþjóð. Í fyrra keypti Domino’s í Bretlandi 49 prósenta hlut í Domino’s á Íslandi og 45 prósenta hlut í sænsku og norsku Domino’s keðjunni af Birgi.
Í samtali við Morgunblaðið segir Birgir að Domino’s í Bretlandi hafi farið þess á leit við sig að hann einbeitti sér í meira mæli að uppbyggingu keðjunnar á Norðurlöndunum og mögulega í Eystrasaltsríkjunum sem nú stendur yfir.
„Ég ákvað að verða við því enda verkefnið stórt og mikill tími sem ég þarf að verja í það,“ segir hann í Morgunblaðinu en Högni Sigurðsson, náinn samstarfsmaður Birgis, og aðilar tengdir honum keyptu hlut hans í Hard Rock.
Hard Rock í Bandaríkjunum er mjög ánægt með að Högni skuli taka við keflinu og ég fer sáttur frá borði þó það hefði sannarlega verið gaman að fylgja þessu verkefni eftir áfram.
Birgir bætir við í Morgunblaðinu að Hard Rock hafi fengið gríðarlega góðar viðtökur.