Auglýsing

Gunnar Bragi kannast ekki við hugsanlega lagasetningu á verkfall sjómanna

Tæplega tvö hundruð manns hafa boðað komu sína á mótmæli við húsnæði ríkissáttasemjara kl. 13 á morgun, mánudag eða á sama tíma og næsti fundur í kjaradeilu sjómanna við Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi fer fram.

„Nú er kominn sá dagur að við höfum gjörsamlega fengið upp í kok, eftir að það lak út að það standi til að setja lög á verkfallið okkar,“ segir í texta sem fylgir viðburðinum á Facebook.

Pistill: Við erum bara að biðja um pínulítinn vott af virðingu frá vinnuveitendum okkar

Gunnar Bragi Sveinsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, segist í skriflegu svari til Nútímans ekki hafa heyrt af hugsanlegri lagasetningu á verkfallsaðgerðir sjómanna sem staðið hafa yfir í þrjár vikur.

„Ég skora á samningsaðila að vera lausnarmiðaða í þessari erfiðu stöðu, það er mjög mikilvægt að þessi deila leysist. Varðandi mögulega lagasetningu þá hefur það ekki verið rætt í mín eyru, ekki rétt í þingflokki Framsóknarmanna og ekki við ríkisstjórnarborðið,“ segir í svari Gunnars Braga.

Á Facebook-síðunni er sérstaklega tekið fram að um friðsamleg mótmæli sé að ræða.

Konráð Þ. Alfreðsson, varaformaður Sjómannasambands Íslands, sagðist í samtali við RÚV í dag ekki vita hverjir standi fyrir mótmælunum.

Hann sagðist vonast til að deilan verði leyst á morgun eða næstu daga.

„Alls ekki. Við erum að búa okkur undir að leysa þessa deilu á morgun eða næstu daga, tiltölulega hratt ef vilji er til sem ég held að sé. Ég held að það sé mikill vilji hjá útgerðarmönnum að leysa deiluna. Og það er vilji hjá okkur til þess og okkur mun takast það,“ segir Konráð í samtali við RÚV. 

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing