Flugfélagið WOW Air býður ekki upp á internettengingu í flugvélum sínum til að spara eldsneytiskostnað. Þetta kemur fram í viðtali við Skúla Mogensen, forstjóra WOW Air, á vef Business Insider.
Þráðlaust internet er í boði hjá ýmsum flugfélögum en Skúli segir í viðtalinu að slíkur búnaður sé bæði dýr og þungur og að ákvörðunin um að sleppa honum verði til þess að flugfélagið geti skorið niður kostnað og viðhaldið lágu verði á flugmiðunum.
Skúli segir í viðtalinu mikilvægt að viðskiptavinir flugfélagsins séu meðvitaðir um hvað þeir séu að kaupa og við hverju þeir megi búast. Þannig er komið í veg fyrir misskilning og Skúli segir að farþegar geti undirbúið sig fyrir flug með því að mæta með sinn eigin mat og drykki ásamt því að geta sótt sér afþreyingu á iPad eða fartölvuna sína fyrir flug.
Skúli segir að markmiðið sé að geta boðið viðskiptavinum sínum ódýrustu flugferðirnar á markaðnum og að árið 2020 vilja hann vera búinn að bæta allt að 50 flugvélum við flota flugfélagsins.
Hann telur að flugferðir verði ókeypis í framtíðinni eða mjög ódýrar. Hann segir að flugmiðinn verði ekki eina leið flugfélagsins til þess að afla sér tekna í framtíðinni og að í staðinn komi tekjur í gegnum hótelbókanir, veitingastaði og bílaleigur.