Auglýsing

Það sem við vitum um leitina að Birnu Brjánsdóttur, málið í algjörum forgangi hjá lögreglu

Víðtæk leit stendur yfir að Birnu Brjánsdóttur en síðast er vitað um ferðir hennar í miðborg Reykja­vík­ur um klukkan fimm aðfaranótt laugardags.

Samkvæmt lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu er málið er í algjörum forgangi og unnið er úr öllum vísbendingum sem berast. „Við rannsóknina, sem hefur staðið yfir sleitulaust í allan dag, hefur lögregla m.a. skoðað upptökur úr eftirlitsmyndavélum og símagögn, en það hefur ekki skilað árangri enn sem komið er,“ segir í færslu á Facebook-síðu lögreglunnar.

Það sem við vitum

  • Birna er tvítug, fædd árið 1996. Hún er 170 sentimetrar á hæð, 70 kíló og með sítt rauðleitt hár. Hún var klædd í svartar gallabuxur, ljósgráa peysu, svartan flísjakka með hettu og var í svörtum Dr. Martens-skóm þegar síðast sást til hennar.
  • Síðast er vitað um ferðir Birnu við skemmtistaðinn Húrra um klukkan fimm aðfaranótt laugardags.

  • Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu kom síðast merki frá farsíma Birnu á farsímasendi í Hafnarfirði. Leitað hefur verið að henni á svæðinu í kringum gömlu slökkvistöðina í Hafnarfirði þar sem rafhlaða símans virðist hafa tæmst.
  • Samkvæmt upplýsingum frá móður Birnu er ekki hægt að útiloka að símanum hafi verið stolið en Birna hætti að senda skilaboð um klukkan þrjú um nóttina. „[Hún] sést ganga ein upp Laugaveginn. Sem gæti breytt leitarfókusnum töluvert,“ segir móðir Birnu á Facebook.
  • Stofnuð hefur verið Facebook-síða tileinkuð leitinni. Á síðunni er meðal annars haldið utan um svæði þar sem fólk hefur þegar leitað.

Sigurlaug Hreinsdóttir, móðir Birnu, kallaði eftir allsherjarleit í fréttum Stöðvar 2 í kvöld. „Þetta er tvítug stelpa, hún er ekki í neinu rugli, hún er ekki að strjúka að heiman. Ég vil bara fá allsherjarleit. Ég vil að björgunarsveitir taki þátt í þessu og það sé leitað úti um allt að henni á meðan það er einhver von,“ sagði hún.

Þau sem hafa upplýsingar um ferðir Birnu eru beðin um að hafa samband við lögregluna í síma 444-1000.

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing