Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu telur fullvíst að slökkt hafi verið á síma Birnu af mannavöldum aðfaranótt laugardags, rafhlaðan kláraðist ekki, eins og áður hafði komið fram.
Þetta kom fram á blaðamannafundi lögreglunnar í dag. Síminn hefur ekki fundist en ef kveikt verður á honum á ný fær lögreglan strax upplýsingar um það. GPS-tækni sem gæti staðsett símann var ekki virk.
Á fundinum kom fram að þrátt fyrir að fjölmargar vísbendingar um ferðir Birnu hafi borist frá borgurum hafi engin þeirra gefi haldbærar skýringar á hvar Birnu er að finna.
Á blaðamannafundinum kom fram að lögreglan hafi fengið aðgang að sms-skilaboðum og Facebook-aðgangi Birnu. Engin samskipti þar hafa varpað ljósi á hvarf hennar.
Lögreglan hefur rætt við 12 vini, vinkonur og fjölskyldumeðlimi Birnu vegna hvarfsins. Ökumaður rauða bílsins sem lögreglan lýsti eftir í morgun hefur enn ekki gefið sig fram.
Það sem hefur komið fram um málið í dag
- Í morgun greindi lögreglan á höfuðborgarsvæðinu frá því að Birna hefði sést í öryggismyndavélum ganga eins síns liðs austur Austurstræti, Bankastræti og Laugaveg að húsi númer 31 þar sem hún hverfur sjónum um klukkan 5.25.
- Einnig kom fram að lögregla leitaði að ökumanni rauðs fólksbíls, líklega af gerðinni Kia Rio. Bílnum var ekið vestur Laugaveg til móts við hús númer 31, klukkan 5.25 aðfaranótt laugardags, eða á sama eða svipuðum tíma og Birna gekk þar um.
- Vinkona Birnu birti myndbönd í von um að þau hjálpi fólki að þekkja hana.
- Að sögn lögreglu tókst að rekja síma Birnu í miðbæ Reykjavíkur um það leyti sem hún sést á eftirlitsmyndavélum. Eftir það var ferð hans rakin til Hafnarfjarðar en það slökknar á honum klukkan 5.55. Engar vísbendingar eru um að Birna hafi verið í Hafnarfirði og vill lögregla ekki útiloka að símanum hafi verið stolið, þó að það sé ólíklegt. Síminn hefur ekki fundist.
- Lögregla hefur gengið úr skugga um að Birna hafi ekki farið úr landi.
- Slysavarnarfélagið Landsbjörg hóf skipulagða leita að Birnu í hádeginu í dag að beiðni lögreglu. Leitað er á svæðinu í 300 metra radíus frá Laugavegi 31, eða þar sem sást síðast til hennar.
- Eftir hádegi var skipulögð leit hafin í Hafnarfirði, eða við Flatahraun og á svæðinu þar í hring. Það var á þessum slóðum sem síðast kom merki frá farsíma Birnu á farsímasendi í Hafnarfirði, aðfaranótt laugardags.
- Þyrla Landhelgisgæslunnar leitaði í Urriðaholti í Garðabæ síðdegis. Leitin þar tengist því að merki úr farsíma Birnu fannst á því svæði aðfaranótt laugardags.
Birna er fædd árið 1996. Hún er 170 sentímetrar á hæð, 70 kg með sítt, rauðleitt hár. Þegar síðast sást til hennar var hún klædd í svartar gallabuxur, gráa peysu, svartan flísjakka með hettu og í svörtum uppreimuðum Dr. Martens-skóm.