Polar Seafood, útgerð grænlenska togarans Polar Nanoq, staðfestir að lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hafi til rannsóknar hvort einn eða fleiri í áhöfninni geti veitt upplýsingar um Birnu Brjánsdóttur, tvítuga konu sem sást síðast aðfaranótt laugardags.
Útgerðin sendi frá sér tilkynningu sem birt hefur verið mbl.is.
Rannsóknin á hvarfi Birnu Brjánsdóttur beinist nú meðal annars að skipverjum grænlenska togarans Polar Nanoq. Vísir greindi frá því í gær að lögreglan hafi fengið lista yfir áhöfnina en togarinn lagði úr höfn á laugardagskvöld.
Sjá einnig: Tímalína rauða bílsins í eftirlitsmyndavélum útskýrð, frá Reykjavík í Hafnarfjörð
Í tilkynningunni segir að þegar útgerðin komst að því að íslenska lögreglan hefði greint mögulega tengingu á milli hvarfs Birnu og togarans Polar Nanoq hefðu strax verið send boð um að togaranum skyldi snúið aftur til Íslands.
Setti útgerðin sig einnig í samband við yfirvöld hér á landi.
„Við komum til með að veita íslenskum yfirvöldum alla mögulega aðstoð við að upplýsa þetta sorglega mál. Við áréttum að sem stendur eru engar sannanir fyrir nokkurs konar tengingu og þar af leiðandi hefur engin kæra verið lögð fram á hendur nokkrum í áhöfninni,“ segir einnig í tilkynningunni.
Vonast útgerðin til þess að málið verði upplýst að fullu sem fyrst. Fram að þeim tíma hafi Polar Seafood engu við málið að bæta.