Auglýsing

Blaðamaður gagnrýnir gróusögur um hvarf Birnu á samfélagsmiðlum: „Við verðum að passa okkur“

Snærós Sindradóttir, blaðamaður hjá Fréttablaðinu, segist aldrei hafa upplifað viðlíka stemningu og ríkti á samfélagsmiðlum í gærkvöldi og í nótt. Fjölmargar sögur gengu á milli fólks um hvarf Birnu Brjánsdóttur, sögur sem urðu ýktari með tímanum sem leið. Sögur sem enginn fótur virðist vera fyrir.

„Mér leið eins og ég væri stödd í miðri flugeldasýningu, ég væri stödd í miðjunni og það væri verið að skjóta upp allt í kringum mig,“ sagði Snærós í þættinum Harmageddon í morgun.

Grímur Grímsson, yfirlögregluþjónn sem stýrir rannsókninni á hvarfi Birnu,  hvatti í samtali við Vísi fólk til að sýna stillingu vegna málsins. Hann sagði einnig að fólk reyni að auka vægi upplýsinga sem það býr yfir. Það er, að ýkja og bæta við til að sagan fái meira vægi eða sé meira spennandi.

Líkt og áður hefur komið fram var ákveðið að snúa grænlenska togaranum Polar Nanoq, sem var á leið frá Íslandi til Grænlands, við og leggja aftur við höfn í Hafnarfirði. Lögreglan rannsakar hvort einn eða fleiri í áhöfninni geti veitt upplýsingar um hvarf Birnu.

Sögurnar sem flugu á milli manna í gærkvöldi beindust meðal annars að togaranum og skipverjunum um borð.

Sjá einnig: Lögregla kannar hvort áhöfn Polar Nanoq geti veitt upplýsingar um Birnu 

Snærós segir að ótrúlega margir hafi haldið því fram að Birna væri um borð í togaranum og benti á að það væri upplýsingar sem hefðu ekki verið staðfestar af lögreglu. Hér má bæta við að Grímur sagði í viðtali við RÚV ekkert sérstaklega líklegt að Birna væri um borð í skipinu.

Snærós sagðist meðal annars hafa fengið skjáskot af einkaspjalli á samfélagsmiðli þar sem fullyrt var að grænlensku togararnir séu allir með vændiskonur innanborðs sem eru lyfjaðar og haldið þar gegn vilja sínum.

Sá sem sagði þetta virtist hafa upplýsingarnar eftir vini sínum sem á að hafa unnið sumarstarf í Hafnarfjarðarhöfn.

„Í fyrsta lagi er þetta bara galið, þessi saga gerir ráð fyrir því að það séu engir tollverðir eða hafnarverðir sem fari í gegnum þessa báta, og þeir gera það,“ sagði Snærós.

Hún sagðist vissulega ekki ætla að setja sig á háan hest og fullyrða að það sé ekkert misjafnt í gangi um borð í togaranum sem er á leið til Íslands á ný.

„Tveimur tímum síðar heyrði ég sögu um að verið sé að flytja tvö til þrjú mansalsfórnarlömb á úr bátnum beina leið á spítalann í Fossvogi. Að þar biði áfallateymi og koma þyrfti konunum undir læknishendur,“ nefndi Snærós sem dæmi sögu sem gekk manna á milli í gærkvöldi, sögu sem enginn fótur virðist vera fyrir.

Hún segir að ábendingarnar og sögurnar hafi verið frá fólki á breiðum aldri, allt frá fólki á menntaskólaaldri og upp í fólk um fertugt.

Við verðum að passa okkur, þetta mál er það óhugnalegt og viðkvæmt, við þurfum ekki að skreyta það með neinum hætti.

Snærós sagði að auðvitað væri fólk hrætt.

„Það verður samt að átta sig á því að þeir sem eru einkaspæjarar hafa lært það, við gúgglum okkur ekki niður að einhverri niðurstöðu,“ sagði Snærós.

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing