Þriðji skipverjinn hefur verið handtekinn um borð í grænlenska togaranum Polar Nanoq. Þetta kemur fram á Vísi. Talið er að hann búi yfir upplýsingum um hvarfið á Birnu Brjánsdóttur en ekkert hefur spurst til hennar síðan á aðfaranótt laugardags.
Fyrr í kvöld var greint frá því að tveir menn hafi verið handteknir um borð í Polar Nanoq í hádeginu í dag. Mennirnir þrír verða yfirheyrðir við komuna til landsins í kvöld.
Sérsveitarmenn fóru um borð í Polar Nanoq úr þyrlu Landhelgisgæslunnar, TF LÍF. Þeir tóku yfir stjórn skipsins sem siglir nú til hafnar í Hafnarfirði. Mennirnir eru allir taldir búa yfir upplýsingum um hvarf Birnu.
Grímur segir í tilkynningunni að aðgerð sérsveitar ríkislögreglustjóra hafi tekist afar vel og var stýrt af lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, ríkislögreglustjóranum og Landhelgisgæslu frá stjórnstöð Landhelgisgæslunnar.