Tveir skipverjar af grænlenska togaranum Polar Nanoq hafa verið úrskurðaðir í tveggja vikna gæsluvarðhald. Héraðsdómur Reykjaness varð við beiðni lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu um gæsluvarðhald en hafnaði því að úrskurða mennina í fjögurra vikna varðhald.
Farið var fram á gæsluvarðhald á grundvelli rannsóknarhagsmuna. Þetta kemur fram á mbl.is.
Lögreglan hefur kært úrskurðinn til Hæstaréttar í von um að gæsluvarðhaldið verði lengt úr tveimur í fjórar vikur.
Mennirnir tveir eru grunaðir um refsiverða háttsemi í tengslum við hvarf Birnu Brjánsdóttur, tvítugrar konu sem saknað hefur verið síðan á laugardag.
Þeir neita báðir að eiga þátt í hvarfi Birnu.
Líkt og áður hefur komið fram voru mennirnir báðir handteknir rétt eftir hádegi í gær um borð í skipinu.
Þeir voru færðir til yfirheyrslu á lögreglustöðinni við Hverfisgötu eftir að Polar Nanoq lagði að bryggju í Hafnarfjarðarhöfn í gærkvöldi. Yfirheyrslur yfir þeim stóðu yfir til klukkan átta í morgun. Haldið verður áfram að yfirheyra þá í dag.
Þriðji maðurinn var handtekinn um borð í togaranum síðdegis í gær. Yfirheyrslur yfir honum hófust kl. 8 í morgun en ekki hefur verið ákveðið hvort farið verði fram á gæsluvarðhald yfir honum.
Mennirnir eru allir þrír grænlenskir ríkisborgarar.