Tveir Grænlendingar, skipverjar á togaranum Polar Nanoq sem úrskurðaðir voru í gæsluvarðhald í gær, eru grunaðir um manndráp.
Í ljósi þess hversu alvarlegur hinn meinti glæpur er fór lögreglan á höfuðborgarsvæðinu fram á fjögurra vikna gæsluvarðhald yfir þeim.
Grímur Grímsson, yfirlögregluþjónn sem stýrir rannsókninni á hvarfi Birnu Brjánsdóttur, staðfestir þetta í samtali við Vísi.
Núna hefur það aðeins komið fram í fjölmiðlum í dag hvað við erum raunverulega með til rannsóknar. Um er að ræða gríðarlega alvarlegt brot, alvarlegasta hegningarlagabrotið, og á þeim grunni fórum við fram á langt gæsluvarðhald.
Héraðsdómur Reykjaness féllst á tveggja viknna gæsluvarðhald yfir mönnunum. Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu kærði úrskurðinn til Hæstaréttar og á Grímur von á því að niðurstaða liggi fyrir í dag.
Það sem við komumst að í gær
- Fjórir skipverjar voru handteknir í gær. Tveir voru úrskurðuðir í gæsluvarðhald, einum var sleppt og sá fjórði var ekki handtekinn í tengslum við leitina að Birnu, heldur vegna fíkniefna sem fundust um borð í Polar Nanoq.
- Fréttatíminn greinir frá því að lögreglan hafi sterkar vísbendingar um að þeir hafi unnið Birnu mein og vinnur eftir þeirri tilgátu.
- Grímur Grímsson, yfirlögregluþjónn sem fer með rannsókn málsins, staðfestir í samtali við Vísi að lögreglan telji yfirgnæfandi líkur á því að skipverjarnir tveir hafi verið í rauða bílnum sem ekið var niður Laugaveginn um það leyti sem síðast sást til Birnu í eftirlitsmyndavélum.
- Bíllinn sem skipverjarnir óku var sá sem dreginn var af bílastæði við Hlíðarsmára í Kópavogi á þriðjudag. Um er að ræða bílaleigubíl sem aðili ótengdur málinu var með á leigu þegar lögreglan gerði hann upptækan.
- Vísir greinir frá því að lögreglan hafi fundið gögn sem benda til þess að misindisverk hafi verið framið í bílnum og samkvæmt Stundinni hafa gögnin verið send erlendis til greiningar.
- Á mbl.is kemur fram að skipverjarnir tveir sjáist aka rauða bílnum að Polar Nanoq í Hafnafjarðarhöfn klukkan 6.10 á laugardagsmorgun.
- 20 mínútum áður greindi mastur við Flatahraun í Hafnarfirði merki frá farsíma Birnu en skömmu síðar var slökkt á honum.
- Heimildir mbl.is herma að mennirnir sjáist stíga út úr bílnum og ræðast við á bryggjunni í góða stund áður en annar þeirra fer upp í skipið. Hinn fer upp í bílinn og ekur út bryggjuna, stopppar við flotkvína í stutta stund áður en hann fer út af svæðinu. Hann sneri aftur um 45 mínútum síðar.
- Bíllinn fór svo nokkrar ferðir til viðbótar út af hafnarsvæðinu áður en togarinn sigldi svo úr höfn um kvöldið.
Skipverjarnir voru yfirheyrðir í gær og í gærkvöldi. Þeir neita báðir sök. Yfirheyrslur halda áfram í dag.