Finni Karlsson, eigandi Priksins, býður björgunarsveitarfólki sem tekur þátt í leitinni að Birnu Brjánsdóttur að borða frítt á Prikinu næstu daga.
„Látið alla björgunarsveitamenn og konur sem þið þekkið vita að þau mega koma á Prikið í frían mat, kaffi og kakó á meðan leitinni stendur næstu daga,“ segir Finni á Facebook.
Bara koma í gallanum. Koma svo, stelpuna heim!
Leitarhópar eru nú úti um allt Reykjanes og í nágrenni höfuðborgarsvæðisins. Yfir 500 einstaklingar taka þátt í leitinni sem er sú umfangsmesta sem Landsbjörg hefur skipulagt.
Hjálmar Örn Guðmarsson í aðgerðastjórn Landsbjargar á höfuðborgarsvæðinu segir á Vísi að leitin hafi gengið þokkalega það sem af er degi. Hún hefur hins vegar ekki enn skilað þeim árangri að hægt sé að þrengja leitarsvæðið.
„Það er mjög mikið af sveitum úti, yfir 500 einstaklingar sem eru úti að leita eða sinna þjónustu í húsi. Það er í raun öllu tjaldað til hvað varðar mannskap, bíla, fjórhjól, hunda og svo framvegis,“ segir Hjálmar á Vísi.