Grænlensku sjómennirnir tveir sem grunaðir eru um morðið á Birnu Brjánsdóttur eru í einangrun á Litla-Hrauni. Yfirheyrslur yfir mönnunum halda áfram í kvöld eða á morgun. Þetta kemur fram á vef RÚV.
Grímur Grímsson, yfirlögregluþjónn og stjórnandi rannsóknarinnar, segir í samtali við RÚV að mennirnir hafi enn ekki verið upplýstir um líkfundinn við Selvogsvita í gær.
Rannsókn málsins heldur áfram af fullum þunga í dag og lögreglan heldur áfram að afla gagna og reyna varpa frekara ljósi á andlát Birnu. Birna sást síðast í miðborg Reykjavíkur aðfaranótt laugardagsins 14. janúar en talið er að lík sem fannst í fjörunni við Selvogsvita í gær sé af henni.
Lögreglan hefur ekki upplýst hvort lífsýni úr Birnu hafi fundist á fleiri stöðum en í rauða bílaleigubílnum, sem sjómennirnir voru með á leigu og hefur sést á eftirlitsmyndavélum í miðborginni, við höfnina í Hafnarfirði og víðar.
Vísir greinir frá því að bílaleigubíllinn hafi verið laskaður að framanverðu þegar honum var skilað til Bílaleigu Akureyrar í Hafnarfirði og að lögreglu þyki það benda til þess að bílnum hafi verið ekið um grófa vegi. Slík ummerki má sjá undir bílnum.