Skilríki Birnu Brjánsdóttur fundust við leit lögreglu í grænlenska togaranum Polar Nanoq. Þetta kemur fram á vef RÚV. Þar kemur fram að skilríkin hafi fundist í ruslafötu um borð í togaranum.
Birna fannst látin við Selvogsvita á sunnudag. Lík hennar var krufið í gær en lögregla verst allra fregna af bráðabirgðaniðurstöðum eftir krufninguna og tjáir sig ekki um hver mögulega dánarorsök Birnu.
Mennirnir tveir sem sitja í gæsluvarðhaldi heita Thomas Møller Olsen og Nikolaj Olsen. Þeir verða yfirheyrðir í dag. Þeir eru grunaðir um að hafa myrt Birnu í rauða bílaleigubílnum sem þeir höfðu til umráða. Blóð úr Birnu fannst í bílnum sem sést á eftirlitsmyndavélum í miðborg Reykjavíkur og við Hafnafjarðarhöfn.
Fréttablaðið greinir frá því í dag að Thomas sé sá sem hafi ekið rauða Kia Rio-bílnum frá Hafnarfjarðarhöfn að morgni laugardagsins 14. janúar síðastliðinn þar sem hann er talinn hafa farið um 300 kílómetra leið. Nikolaj er sagður hafa farið aftur um borð í Polar Nanoq um morguninn.