Heildarmyndin í rannsókn lögreglu á máli Birnu Brjánsdóttur er orðin skýrari eftir yfirheyrslur yfir mönnunum tveimur sem sitja í gæsluvarðhaldi. Þetta kemur fram á vef RÚV og er haft eftir Grími Grímssyni yfirlögregluþjóni sem stýrir rannsókninni.
Birna verður borin til grafar frá Hallgrímskirkju á föstudag. Fjölskylda hennar hefur óskað eftir því að fjölmiðlar sýni nærgætni og taki ekki myndir í jarðarförðinni eða eftir hana.
Grímur segir í samtali við RÚV að ákvörðun um hvort farið verði fram á áframhaldandi gæsluvarðhald yfir tvímenningunum eigi að liggja fyrir annað í kvöld eða í fyrramálið. Hinir grunuðu hafa setið í gæsluvarðhaldi eða í einangrun í þrettán daga. Yfirheyrslurnar í gær voru þær fyrstu í tæpa viku.
Mennirnir verða áfram yfirheyrðir í dag en játning liggur ekki fyrir í málinu. Beðið er eftir niðurstöðum úr frekari lífsýnarannsóknum og endanleg krufningarskýrsla liggur ekki fyrir.