Það virðist vera frekar flókið að finna góða hlífðarflík á Íslandi sem vegan, að minnsta kosti um miðjan vetur. Þetta er niðurstaða Ólafar Hugrúnar Valdimarsdóttur en hún hefur verið að leita sér að hlýrri, vatnsheldri og slitsterkri úlpu að undanförnu sem er vegan.
Til þess að uppfylla síðasta skilyrðið má úlpan ekki vera gerð úr neinum dýraafurðum, t.d. ekki gerð úr dún, feldi eða leðri. Og það virðist ekki vera hlaupið að því að finna þannig vöru.
Sjá einnig: Getur þynnkumatur verið vegan? „Get ímyndað mér að vera skítþunn og borða þennan hamborgara“
„Ég skoðaði á netinu, spurðist fyrir og fékk ábendingar um nokkrar verslanir, til að mynda tvær týpur í 66°Norður, ein í Cintanami og úlpu af gerðinni Didrikson sem fást bæði í Ellingsen og svo í Sportbæ á Selfossi. Einnig var til vegan-úlpa í Júník en hún er uppseld,“ segir Ólöf.
Hún bætir við að vel geti verið að fleiri verslanir selji vegan-hlífðarfatnað en hún viti þó ekki til þess.
Eftir að hafa aflað sér þessara upplýsinga fór Ólöf á stúfana í von um að finna sér úlpu. „Ég komst að því að allt upplagið af Didrikson er búið í Ellingsen þangað til næsta haust, úlpan í Cintanami er ekki alveg vatnsheld og afar lítið úrval af litum og stærðum er til í 66°Norður,“ segir Ólöf.
Hún vildi kaupa úlpuna í 66°Norður af gerðinni Hekla Park en hún var ekki til í stærð Ólafar. „Það eina sem ég á eftir að reyna er að gera mér ferð á Selfoss, til að athuga hvort ég finni eitthvað við hæfi þar,“ segir Ólöf.
Hún segist hafa mætt ágætis viðmóti í þeim verslunum sem hún fór í. Þá hafi flest starfsfólkið sem Ólöf talaði við verið meðvitað um vöruna sem það selur en ekki allt. „Hins vegar virtist það koma starfsfólkinu á óvart að þeirra verslun væri ein af fáum sem seldu vegan-vöru en ég nefndi þá staðreynd við alla sem þjónustuðu mig,“ segir Ólöf.
Finnbogi Llorens, innkaupastjóri hjá Ellingsen, segir að líklega hafi starfsmaðurinn sem aðstoðaði Ólöfu í búðinni þegar henni var sagt að allar vegan-úlpur væru uppseldar þar. Hann segir að enn sé dálítið til af úlpum frá Didrikson og Columbia sem teljist vera vegan. Aftur á móti er Vega-línan frá Didrikson meira og minna uppseld en nafnið vísar ekki til þess að hún sé vegan.
„Ef skilyrðin eru þessi, að úlpan sé ekki gerð úr dýraafurðum, þá uppfylla töluvert margar úlpur hjá okkur þau skilyrði. Við auglýsum þær samt ekki sem vegan,“ segir Finnbogi. Hann segist vita til þess að 66°Norður hafi auglýst vegan-úlpur til sölu og vel komi til greina að Ellingsen geri slíkt hið sama. Verið sé að ræða þessi mál innan fyrirtækisins.
Finnst hún þurfa að réttlæta valið fyrir fólki
Ólöf er ekki vegan en segist vera að vinna sig í átt að því að nota ekki dýraafurðir. „Ég hætti að borða kjöt fyrir ári síðan þegar ég var í Nígeríu, kjúklingur og hrísgrjón var langalgengasti maturinn, ég endaði á að fá mig fullsadda af kjöti og tók það út úr mataræðinu,“ segir hún.
Síðustu jól og áramót dvaldi hún á Balí og fór meðal annars á jóganámskeið þar sem aðeins var boðið upp á grænmetismat. Ólöf fannst það henta henni vel og eftir að hún kom heim ákvað hún að taka egg, fisk og mjólkurvörur út úr mataræðinu eins og hún gat. „Þessi ákvörðun er heilsufarsleg en ekki síður siðferðisleg af minni hálfu. Ég veit ekki hvort ég verði 100% vegan en þetta er tilraun sem stendur yfir hjá mér,“ segir Ólöf.
Hún segist sakna þess frekar mikið að borða mjólkurvörur.
„Ég hef til dæmis ekki ennþá rekist á vegan-ost sem mér finnst góður, það er óttalegt plastbragð af þeim vörum sem ég hef smakkað hingað til. Mjólkurvörur henta mér reyndar alls ekki, þær hata mig eins mikið og ég elska þær þannig að það er ágætt fyrir mig að hafa sem minnst af þeim í mataræðinu, þrátt fyrir allt,“ segir Ólöf.
„Það er alveg visst vesen að borða ekki dýraafurðir, sérstaklega í heimboðum, eðlilega. Mér finnst ekki að ég geti ætlast til þess að fólk sem býður mér heim hagi sínu boði eftir minni hentisemi en það er vel þegið þegar þetta er haft í huga varðandi mat sem er á boðstólum. Ég er að prufa mig áfram í matseld, þetta er frekar einhæft hjá mér enn sem komið er en stendur til bóta,“ segir hún.
Ólöf segir að viðmót sumra gagnvart því að vera vegan sé merkilegt.
„Mín upplifun er að þurfa nokkuð oft að réttlæta mitt val fyrir fólki sem finnst þetta skrítið. Auðvitað er allt í lagi að spyrja spurninga og forvitni er hið besta mál, jafnvel geta áhugaverðar umræður skapast þegar þetta ber á góma. Annað er að ég er ekki hrifin af sóun þannig að þær vörur sem ég nú þegar á og eru ekki vegan mun ég ekki fleygja heldur nota þar til þær eru úr sér gengnar og gera þá meðvituð kaup,“ segir Ólöf að lokum