Þegar leikarinn Þórir Sæmundsson (thorirsaem) kvaddi fylgjendur World Class á Snapchat furðaði hann sig á neikvæðum skilaboðum þar sem fólk kvartaði yfir lélegum færslum. Flestir þökkuðu kærlega fyrir sig en Þórir telur að neikvæðu skilaboðin séu birtingamynd þess hluta samfélagsins sem telur sig eiga einhvers konar rétt á því að láta skemmta sér ókeypis.
Sjá einnig: Lóksláttur Helga Björns í Ligeglad byggður á raunverulegum atburðum? sjáðu myndbandið
Þórir þakkaði þó sérstaklega fyrir neikvæðu skilaboðin þegar hann kvaddi fylgjendur World Class þar sem honum fannst þau áhugaverð. Í samtali við Nútímann segist hann ekki skilja hvers vegna fólk horfi ef því þykir efnið leiðinlegt. „Þetta voru nú mest allt jákvæð skilaboð,“ segir Þórir.
En það voru líklega í kringum tíu manns sem voru með einhver leiðindaskilaboð. Fólk var að kvarta yfir lélegu story yfir helgina og að þetta væri leiðinlegasta story sem það hafði séð og eitthvað í þá áttina.
Þórir segir þetta hafa slegið sig vegna þess að fyrir honum sé þetta birtingarmynd þess hluta samfélagsins sem telur sig eiga einhvers konar rétt á hinu og þessu. Hann telur að hópurinn fari vaxandi. „Ég skil ekki alveg hvað fólk er að hugsa þegar það sendir svona skilaboð,“ segir hann.
„Þetta er frí skemmtun í boði á miðlinum og fólk er orðið svo spillt og dekrað að það telur sig eiga rétt á því að þessi fría skemmtun sé bara dullufyndin. Líklega er það svo bara hluti af þessu fólki sem tjáir sig.“
Þóri finnst ótrúlegt að fólk sé með neikvæða gagnrýni á eitthvað sem skipti það engu máli í lífinu. „Appið er ókeypis og það þarf ekki að horfa á neitt nema maður vill,“ segir hann. „Mér finnst krafan um að efnið í þessum ókeypis miðli eigi að vera gott og skemmtilegt svo mögnuð. Krafan kemur frá fólki sem telur sig eiga rétt á hinu og þessu.“
Þórir ítrekar þó að jákvæðu skilaboðin hafi verið miklu fleiri en þau neikvæðu. „En neikvæðu skilaboðin eru að mínu mati birtingarmynd þess hvernig mannkynið er á skrítnum stað og miðað við allt sem er að gerast í heiminum er fólk bara sjálfhverft og telur sig eiga rétt á hlutunum,“ segir hann.