Auglýsing

Ólöf Nordal er látin

Ólöf Nordal, alþingismaður og fyrrverandi innanríkisráðherra, er látin. Ólöf var fimmtíu ára.

Ólöf greindist með krabbamein sumarið 2014. Hún greindist öðru sinni í desember 2015. Í október í fyrra var hún lögð inn á sjúkrahús vegna lungnabólgu og sýkingar. Hún skipaði þá efsta sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík suður í kosningum til Alþingis. Hildur Sverrisdóttir tók sæti hennar á þingi við setningu Alþingis í byrjun desember.

Ólöf var gift Tómasi Má Sigurðssyni. Hún lætur eftir sig fjögur börn, Sigurð 25 ára, Jóhannes 22 ára, Herdísi 20 ára og Dóru 12 ára. Foreldrar Ólafar voru Jóhannes Nordal, fyrrverandi seðlabankastjóri, og Dóra Guðjónsdóttir Nordal, píanóleikari og húsmóðir.

RÚV greinir frá.

Ólöf var alþingismaður Sjálfstæðisflokks fyrir Norðausturkjördæmi árin 2007 til 2009, og alþingismaður Reykjavíkurkjördæmis suður 2009 til 2013 og síðan frá 2016. Hún var innanríkisráðherra 2014 til 2016.

Ólöf lauk stúdentsprófi frá MR 1986, lögfræðiprófi frá Háskóla Íslands 1994 og MBA-prófi frá Háskólanum í Reykjavík árið 2002. Hún var deildarstjóri í samgönguráðuneyti 1996-1999, lögfræðingur hjá Verðbréfaþingi Íslands 1999-2001, stundakennari í lögfræði við Viðskiptaháskólann á Bifröst 1999-2002, deildarstjóri viðskiptalögfræðideildar Viðskiptaháskólans á Bifröst 2001-2002, yfirmaður heildsöluviðskipta hjá Landsvirkjun 2002-2004, framkvæmdastjóri sölusviðs hjá RARIK 2004-2005 og framkvæmdastjóri Orkusölunnar 2005-2006.

Formaður bankaráðs Seðlabanka Íslands 2013-2014 og innanríkisráðherra 4. desember 2014 til 11. janúar 2017. Hún var formaður Sjálfstæðiskvennafélagsins Auðar á Austurlandi 2006-2009 og varaformaður Sjálfstæðisflokksins 2010 til 2013 og aftur frá 2015. Þá gegndi hún formennsku hjá Spes, hjálparsamtaka vegna byggingar barnaþorpa í Afríku.

Þingstörfum hefur verið frestað það sem eftir lifir dags.

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing