Þórdís Elva Þorvaldsdóttir og Tom Stranger stigu saman fram í áhrifamiklum TED-fyrirlestri undir lok síðasta árs og sögðu frá því þegar hann nauðgaði henni þegar hún var 16 ára. Fyrirlesturinn hefur vakið mikla athygli víða um heim og áhorfin eru komin á aðra milljón.
Þórdís kærði aldrei ofbeldið. Mörgum árum síðar rauf hún þögnina og sendi Tom póst þar sem hún lýsti ofbeldinu sem hann hafði beitt hana. Þórdís bjóst við neikvæðum viðbrögðum en þess í stað fékk hún skilyrðislausa játningu frá honum. Hann vildi gera fortíðina upp með henni.
Sjá einnig: Tom nauðgaði Þórdísi þegar hún var 16 ára, þau segja sögu sína saman í áhrifamiklum fyrirlestri
Þórdís segir frá viðbrögðum sem hafa staðið upp úr á Facebook-síðu sinni. Eftir milljón áhorf, þúsundir athugasemda og hundruð frétta eru þessi skilaboð frá sextán ára indverskum dreng það sem stendur upp úr, í hjarta mínu. Deilt með góðfúslegu samþykki hans,“ segir hún.
Í skilaboðunum segir drengurinn, sem er 16 ára gamall, að umræða um kynlíf sé tabú í Indlandi. „Hér búa 1,2 milljarðar manna og það líður ekki dagur án þess að hræðilegt naugðunarmál komist í fréttir. „Þangað til í gær trúði ég að konur geti sjálfum sér um kennt að geta ekki varið sig. Nú veit ég að ég hafði rangt fyrir mér,“ sagði hann.
Drengurinn segir að fyrirlesturinn hafi breytt hugsunarhætti sínum og segist hann vera búinn að horfa þrisvar sinnum á hann vegna þess að hann trúði ekki eigin eyrum. Þá segist hann hafa grátið eftir að hann horfði á fyrirlesturinn vegna þess að hann sá að hann var sjálfur búinn að vera hluti vandans.
„Það þurfti eflaust mikið hugrekki til að gera þetta. Við þurfum fleira fólk eins og þig. Gangi þér vel í framtíðinni,“ segir hann.
Hér fyrir neðan má sá færslu Þórdísar
Bók Þórdísar, Handan fyrirgefningar, er væntanleg 16. mars.