„Vil fá þrönga píku, fullnægingu, hérna er númerið mitt, finndu síma og hringdu“ rappaði Dabbi T hér um árið. Ég sem forfallin aðdáandi íslensku rappsenunnar sönglaði auðvitað með og hugsaði að þröng píka hlyti að vera gríðarlega eftirsóknarvert fyrirbæri. En stoppum aðeins hér — hvað er þröng píka? Þegar píkan er kynferðislega örvuð, fer af stað lífeðlislegt viðbragð. Það slaknar á vöðvunum sem liggja í kringum leggöngin sem verða einnig blaut, þó mismikið. Þá fyrst, eftir nægilega kynferðislega örvun, er píkan tilbúin að fá fingur, typpi eða annan aðskotahlut inn í leggöngin. Ef að leggöngin eru ekki tilbúin er einstaklingurinn með svokallaða „þrönga píku“.
En það er kannski ekkert svo frábært eftir allt saman að vera með þrönga píku? Einstaklingurinn er annað hvort ekki nógu kynferðislega örvaður, kvíðinn eða bara langar ekki að fá eitthvað inn í leggöngin sín. Þegar maður veit það, þá hljómar „þröng píka“ ekki lengur eins og eftirsóknarvert fyrirbæri.
Rétt eins og að typpið lengist ekki við hverja sjálfsfróun eða samfarir þá umbreytist píkan ekki við notkun. Jafnvel þó að einstaklingur með píku hefði stundað samfarir með þúsund aðilum, þá fer píkan aftur í sitt sama horf. Þú getur hugsað um píkuna eins og munninn á þér. Ef þú opnar munninn og jafnvel teygir hann út við munnvikin, hvað gerist þegar þú lokar munninum? Munnopið lafir ekki eins og loftlaus blaðra eftir á, heldur fer allt aftur í sitt sama horf. Það sama á við um leggöngin.
Umræðan um „þrönga píku“ er ein tegundar birtingarmyndar á tvöföldum staðli kynhegðunar. Þessi umræða getur hreinlega verið hættuleg, þar sem konur og aðrir einstaklingar með píkur leitast eftir aðferðum til að „þrengja“ píkuna. Þau kaupa ef til vill efni sem eiga að vera til þess gerð að þrengja píkuna. Sumir ganga það langt að fara í óþarfa aðgerð sem geta valdið slæmum aukaverkunum eins og verki við samfarir, eða minnkaða tilfinningu í leggöngunum.
Með aldri eða eftir barneignir er þó eðlilegt að finna fyrir auknum lausleika í leggöngunum. Ef það er virkilegt vandamál fyrir þig skaltu tala við lækninn þinn. Eftir mörg þúsund ár af þróun mannsins ættum við að geta treyst því að píkan er nokkuð fullkomin. Hættum því að vera með óraunhæfa æskudýrkun á píkunni og elskum hana eins og hún er, með breytingum og öllu.
Indíana tekur glöð við spurningum frá lesendum. Sendu henni póst og hún gæti svarað á Nútímanum. Fullum trúnaði heitið.