Auglýsing

Staðreyndir og staðleysa

Í gær var Óttar Guðmundsson geðlæknir í viðtali hjá Síðdegisútvarpinu á Rás 2 til þess að ræða um birtingu nektarmynda á internetinu. Án þess að fjalla sérstaklega um ábyrgð fjölmiðla á því að að dreifa staðleysu, eða ábyrgð lækna á því að fara með staðleysu, eru hérna nokkrar staðreyndir um dreifingu nektarmynda á internetinu.

Einstaklingar mega taka af sjálfum sér eins myndir og þeim sýnist. Þetta felst meðal annars í tjáningarfrelsinu sem okkur er tryggt í gegnum alþjóðlega mannréttindasamninga og stjórnarskrá. Velji einstaklingar að deila myndum með öðrum verða þeir að hafa í huga að sé myndin „lostug“ getur sending hennar falið sér brot á ákvæðum hegningarlaga. Það er því vissast að vera viss um að viðtakandi hafi áhuga á að móttaka slíkar myndir. Sé myndefni deilt er þó ekki sjálfsagt að myndunum megi deila áfram, enda geta þær notið lagaverndar t.d. á grundvelli höfundarréttar eða friðhelgis vegna persónuverndarsjónarmiða þó að samþykki sé fyrir móttöku þeirra.

Viðtakendum stafrænna myndsendinga ber því að leita samþykkis þess sem sendi myndina fyrir því að deila henni áfram. Fái þeir samþykki má deila myndefninu áfram. Geri þeir það ekki getur dreifingin falið í sér sjálfstætt brot gegn ákvæði hegningarlaga um „blygðunarsemi„. Þó að deilingin sé tilkomin vegna þess að viðtakendur sé eitthvað „súrir eftir sambandsslit“ léttist ekkert á þessari skyldu. Raunar hefur slík „súrnun“ áhrif í hina áttina, til refsiþynginga, þar sem að trúnaðarbrot gegn maka, fyrrum maka eða öðrum nátengdum er talið auka á alvarleika brota af þessum toga.

Sé einstaklingurinn á myndinni barn að aldri þegar myndin er tekin getur áframdeiling slíka mynda varðað við ákvæði barnaverndarlaga að auki við ákvæði hegningarlaga. Það er jafnvel hugsanlegt að deilingin gæti talist brot á ákvæðum um barnaklám.

Þá getur hótun um að áframsenda myndefni falið í sér sjálfstætt brot. Hæstiréttur komst nýlega að þeirri niðurstöðu að ef einstaklingur hótar öðrum að birta af honum myndefni án samþykkis, nema að viðkomandi stundaði með honum kynlíf, teldist tilraun til nauðgunar í skilningi í hegningarlaga. Umrædda mynd hafði einstaklingurinn sent brotamanninum með einkaskilaboðum eins og oft er í samskiptum einstaklinga.

Staðhæfing Óttars um um að kona sem verði fyrir ósamþykktri myndbirtingu „ … getur engum um kennt nema sjálfri sér því það bera allir ábyrgð á því sem þeir setja á netið sjálfir“ er ennfremur ekki í samræmi við ályktanir sem má draga af íslenskri dómaframkvæmd um tjáskipti í gegnum internetið. Það að senda einhverjum myndefni af sjálfum sér, tildæmis með tölvupósti, í gegnum smáskilaboð eða einkaskilaboðum í gegnum samfélagsmiðla verður í þessu samhengi almennt ekki jafnað til þess að birta slíkt efni á vefsíðum eða opnum svæðum á samfélagmiðlum. Þannig nýtur efni sem er sent öðrum einstaklinga í trúnaði ríkari verndar en efni sem sami aðili deilir á facebook vegginn sinn.

Svo skil ég hreinlega ekkert í því að Rúv sé að fá Óttar til þess að ræða þessi mál þegar þau geta haft samband við mig. Þó að við skrifum bæði bakþanka fyrir Fréttablaðið er ég mjög hissa á þessum ruglingi hjá þeim.

Pistillinn var fyrst birtur á bloggsíðu Maríu en er birtur á Nútímanum með leyfi höfundar.

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing