Sylvía Rut Sigfúsdóttir hefur verið ráðin ritstjóri tímaritsins Nýtt líf. Hún mun einnig sjá um ýmis önnur verkefni tengd tímaritum Birtings.
Viðskiptablaðið greinir frá þessum á vef sínum.
Sylvía Rut hefur starfað hjá Pressunni frá því í júní 2013 en fyrirtækið hefur keypt allt hlutafé í Birtingi og tekur nú við útgáfu á tímaritum fyrirtækisins.
Í frétt Viðskiptablaðsins kemur fram að Sylvía Rut hafi ritstýrt Bleikt frá árinu 2014 og einnig Pressunni frá því á síðasta ári en láti nú af þeim störfum. Sylvía Rut tekur við sem ritstjóri Nýs Lífs af Ernu Hreinsdóttur, sem lét af störfum um síðustu áramót, og hefur störf á næstu dögum.
Sylvía Rut er með meistaragráðu í fjölmiðlafræði frá Kaupmannahafnarháskóla og er einnig lærður förðunarfræðingur. Hún býr í Hafnarfirði ásamt eiginmanni sínum Snorra Sigurðssyni verkfræðingi og tveimur sonum.