Nefnd Evrópuráðsins gegn kynþáttafordómum og umburðarleysi (ECRI) hefur áhyggjur af efni sjónvarpsstöðvarinnar Omega og útvarpsstöðvarinnar Útvarps Sögu.
Þetta kemur fram í fimmtu skýrslu ráðsins um Ísland sem kom út í síðasta mánuði en fjallað er um málið í Fréttablaðinu í dag.
Í skýrslunni segir að nefndin hafi tekið eftir því að sjónvarpsstöðin Omega haldi áfram að stunda hatursorðræðu gegn múslimum. Þá segir einnig að nefndinni sé kunnugt um að útvarpsstöðin Útvarp Saga dreifi hatursorðræðu sem beint er að innflytjendum, múslimum og hinsegin fólki.
Í skýrslunni kemur fram að Fjölmiðlanefnd hafi ekki borist formlegar kvartanir vegna framgöngu Útvarps Sögu og Omega. Aftur á móti viti nefndin að lögreglu hafi borist kvartanir vegna fjölmiðlanna tveggna en þær hafi ekki leitt til ákæru.
Nefndin lýsir yfir vonbrigðum með að fjölmiðlanefnd fylgist ekki með fjölmiðlum á Íslandi og grípi til aðgerða að eigin frumkvæði vegna brota, jafnvel þó að Fjölmiðlanefnd hafi úrræði til þess. Þetta komi til vegna skorts á starfsfólki og fjármagni og harmar nefndin það.
Vegna þessa haldi fjölmiðlar á borð við Ómega og Útvarp sögu áfram uppteknum hætti, óáreittir.
Á vefsíðu sjónvarpsstöðvarinnar segir að hinn 8. nóvember árið 1991, þá hafi Guð talað til Eiríks Sigurbjörnssonar, að setja upp kristilega sjónvarpsstöð á Íslandi. Eiríkur sótti um sjónvarpsleyfi og fékk heimild til að sjónvarpa 24 tíma á sólarhring. Eftir 9 mánaða undirbúning, þá hóf sjónvarpsstöðin Omega útsendingar, hinn 28. júlí 1992. Hinn 1. júní 2002, hóf Omega útsendingar allan sólarhringinn frá Íslandi til meginlands Evrópu, á gervihnattarás, sem kölluð er Gospel Channel.