„Hún Tara sem kom til mín í gær, þetta er frábær manneskja. Hún er að berjast fyrir góðu málefni að mínu mati. Mér finnst algjör óþarfi að fara í hana. Ég veit að hún hefur unnið frábært starf, bæði sem félagsráðgjafi og í þessu starfi.“
Þetta sagði sjónvarpsmaðurinn Sindri Sindrason í Reykjavík síðdegis á Bylgjunni í dag. Hlustaðu á viðtalið hér fyrir neðan.
Viðtal Sindra við Töru Margréti Vilhjálmsdóttur, formann Samtaka um líkamsvirðingu, í fréttum Stöðvar 2 í gær hefur vakið mikla athygli. Í viðtalinu sagði Tara Sindra vera í forréttindastöðu eftir að hann spurði hvort fordómar sem fólk upplifir væru innra með því. „Þú þarft að upplifa það að vera í jaðarhópi til að skilja þetta,“ sagði hún.
Sindri greip þá orðið á lofti og spurði hvort hún vissi hvað hann er í mörgum minnihlutahópum. „Ég er hommi, ég á litað barn, það er ættleitt, ég er fyrsti samkynhneigði maðurinn til að ættleiða á Ísland, ég er giftur útlendingi – eða hálfum útlendingi – þannig að við skulum ekki fara þangað.“
Sjá einnig: Viðtal Sindra við Töru leggur internetið á hliðina: „Ég er hommi, ég á litað barn, það er ættleitt“
Sindri sagði í Reykjavík síðdegis að spurning sín hafi verið eðlileg og benti á að hann hafi aldrei orðið fyrir fordómum í lífinu. „Mér hefur verið bent á áður að ég sé einhvers konar forréttindahommi, vegna stöðu minnar,“ sagði hann.
„Þá bendi ég á: Var ég forréttindahommi þegar ég ólst upp í Fellunum eða var í Fellaskóla, eða var í FB, eða fór í háskóla, eða þegar ég var að byrja á Stöð 2. Ég man alveg eftir að hafa hugsað þetta þegar ég var yngri — það var erfitt að koma út úr skápnum og það tók mörg ár. En eftir að ég kom síðan út þá hef ég aldrei orðið fyrir fordómum. Þess vegna fannst mér þetta líka eðlileg spurning: Er þetta ekki meira innra með okkur heldur en þarna úti.“
Spurður hver væri forréttindastaða hans væri sagðist Sindri ekki kannast við hana. „Nei, bara alls ekki.“
Sindri ítrekaði að hann vildi ekki að orð hans væru túlkuð þannig að hann þó hann hafi ekki orðið fyrir fordómum að þá finni annað fólk ekki fyrir fordómum.
Hann segir að það hafi ekki fokið í hann í viðtalinu en hann hafi orðið hissa. „Þarna hefði hún getað sagt: Við erum að tala um þetta almennt, en þarna beinir hún þessu beint gegn mér. Ég verð ekki reiður, ég verð bara meira hissa og þá fannst mér bara allt í lagi að svara – ég er í fullt af minnihlutahópum,“ sagði hann í Reykjavík síðdegis.