Smáauglýsing sem birtist í Fréttablaðinu í morgun hefur vakið mikla athygli. Í auglýsingunni er Margrét Erla beðin um að hafa samband við Sigfríð, án þess að það sé útskýrt nánar. Þá fylgja auglýsingunni engar upplýsingar um hvernig Margrét Erla á að hafa uppi á Sigfríð.
Einhverjir töldu að skilaboðunum væri beint að Margrét Erlu Maack en hún blés á þær raddir á Twitter
já, margir eru að senda, kannast ekki við.
— Margrét Erla Maack (@mokkilitli) March 9, 2017
Nútíminn hafði samband við fjölda kvenna sem heita Sigfríð en engin vildi kannast við að bera ábyrgð á auglýsingunni.
Sigfríð Gerður Hallgrímsdóttir segist vera blásaklaus og tengjast málinu ekki neitt „Það væri ekki nema það sé verið að hrekkja mig,“ sagði Sigfríð hress í samtali við Nútímann.
Sigfríð Dís Sigþórsdóttir sagði ekki einu sinni þekkja neina Margréti Erlu — þetta gæti því ekki verið hún. Sigfríð Andradóttir, hárskeri frá Búðadal, sagðist ekki einu sinni hafa séð auglýsinguna. „Ég ber enga ábyrgð á þessu,“ sagði hún.
Sigfríð Elín Þorvaldsdóttir hafði séð auglýsinguna og hafði gaman af henni en tók enga ábyrgð. „Nei, þetta er ekki ég, ég lofa þér því. Ég færi ekki að ljúga að þér,“ sagði hún hress.