Katrín Sigurbergsdóttir og Ingunn Anna, kærasta hennar, fengu á dögunum óvinalegt tiltal frá starfsmanni Grafarvogslaugar, fyrir að faðmast í sundlauginni. Katrín segir frá þessu á Facebook-síðu sinni og Nútíminn fékk leyfi til að vitna í frásögn hennar.
„Við Ingunn fengum ekki svo vinalegt tiltal frá starfsmanni Grafarvogslaugar vegna þess að við vorum að faðmast í sundlauginni,“ segir Katrín og bætir við að miðaldra, gagnkynhneigt par hafi fengið að faðmast í pottinum óáreitt stuttu áður.
Við særðum víst blygðunarkennd eins gamals manns svo mikið að hann fór úr lauginni og heimtaði að starfsmaður myndi gera eitthvað í þessu.
Katrín segir manninn hafa sagt þær hafa verið að káfa á hvor annarri fyrir framan hann. „Þetta atvik dró okkur heldur of harkalega af bleika skýinu sem við vorum búnar að lifa á síðan við fórum að vera saman og beint niður í sorglega raunveruleikann,“ segir hún.