44 prósent íslenskra heimila eru með áskrift að Netflix. Áskriftarfjöldi hefur tvöfaldast frá því að Netflix opnaði formlega fyrir þjónustu sína hér á landi í janúar í fyrra en áður en það gerðist nýttu um 22 prósent heimila landsins sér þjónustu Netflix með krókaleiðum.
Þetta kemur fram í niðurstöðum Gallup sem greint er frá í fréttatilkynningu frá Félagi rétthafa í sjónvarps- og kvikmyndaiðnaði, FRÍSK. Félagið fer fram á að stjórnvöld á Íslandi jafni samkeppnisumhverfi íslenskra efnisveitna gagnvart þeim erlendu og dragi úr álögum á íslenska sjónvarps- og kvikmyndaiðnaðinn.
„Erlendar efnisveitur á borð við Google Play og Netflix, sem hafa opnað fyrir þjónustu sína á Íslandi, sem og rafrænar tónlistarveitur á borð við Spotify og Google Music, greiða engan virðisaukaskatt eða önnur opinber gjöld hér á landi,“ segir í tilkynningunni.
Þar kemur einnig fram að íslenski sjónvarps- og kvikmyndaiðnaðurinn greiði um 12 milljarða króna árlega til hins opinbera á meðan erlendar efnisveitur greiði ekkert.
Hallgrímur Kristinsson, stjórnarformaður FRÍSK, segir félagsmenn sína ekki kvíða samkeppni við erlendar efnisveitur. „En slík samkeppni þarf að fara fram á jafnréttisgrundvelli,“ segir hann.
Álögur og kvaðir á innlenda aðila verða að lækka ellegar verður minna innlent efni í boði og við sitjum uppi með erlendar efnisveitur og erlent efni. Rannsóknir sýna að tæp 88% landsmanna telja mikilvægt að sýnt sé innlent sjónvarps- og kvikmyndaefni.
Hann segir með öllu ótækt að erlendar efnisveitur borgi engan virðisaukaskatt hér á landi. „Skattur á tónlist og bókum er 11 prósent en myndefnisveitur og kvikmyndahús borga 24 prósent!“
Samkvæmt könnun Gallup, sem vísað er í hér fyrir ofan, þá hafa innlendir aðilar og rétthafar orðið af tæpum 1,7 milljarði króna viðskiptum árlega vegna samkeppninar við Netflix og sambærilegar þjónustur. „Þetta eru þeir aðilar sem annars hefðu keypt efnið af íslenskum þjónustum ef erlendu þjónustunnar nyti ekki við,“ segir í tilkynningunni.
FRÍSK leggur til að virðisaukaskattur af VOD-þjónustu, myndefni eftir pöntun, DVD-diskum, sölu kvikmynda á netinu og bíómiðum verði lækkaður úr 24% niður í 11% í samræmi við virðisaukaskattshlutfall bóka, geisladiska og áskriftargjalda.
Þá leggur félagið til að skattayfirvöld taki til skoðunar skattskyldu þeirra erlendu efnisveitna sem kjósa að veita þjónustu sína hér á landi og auki stuðning sinn við íslenskan sjónvarps- og kvikmyndaiðnað með skattalækkunum og/eða Kvikmyndasjóði.
FRÍSK leggur einnig til að fyrirtæki fái styrki til talsetningar og textunar á sjónvarps- og kvikmyndaefni.