Í kvöld mun koma í ljós hvort framkvæmdastjóri Domino’s á Íslandi viti hversu mörg pepperóní fara á hina vinsælu Meat&Cheese og hvort markaðsstjórinn þekki stystu leiðina í Klukkuberg í Hafnarfirði.
Pítsubakarar og sendlar fyrirtækisins í Flatahrauni í Hafnarfirði ætla nefnilega að leggja niður störf í kvöld og gera sér glaðan dag saman eftir að hafa unnið æsispennandi keppni.
„Eðli málsins samkvæmt gengur ekki að loka Domino’s-verslun sísona og þarf að manna vaktina í Flatahrauninu,“ segir Anna Fríða Gísladóttir, markaðsstjóri Domino’s á Íslandi, í samtali við Nútímann.
Því var ákveðið að senda stjórnendurna í æfingabúðir svo að þau gætu gengið í störf starfsfólksins og séð til þess að Hafnfirðingar fái örugglega pítsuna sína.
„Ég er búin að verja mestum hluta dagsins í að læra matseðilinn okkar 100% en við erum búin að undirbúa okkur vel. Annars er ég persónulega smá stressuð fyrir því að fara með sendingar í Hafnarfjörð þar sem ég er fædd og uppalin í 101,“ segir Anna Fríða.
Nýlega hleypti Domino’s nýjum innri vef af stokkunum, sem væri í sjálfu sér ekki í frásögur færandi, nema ákveðið var að hvetja starfsfólk til að skrá sig inn á vefinn með nýstárlegum hætti. Efnt var til keppni á milli verslana Domino’s; sú verslun sem yrði fyrst til að vera skipuð starfsmönnum sem allir væru skráðir á innri vefinn fengju skemmtileg verðlaun.
Eftir æsispennandi keppni reyndust starfsmenn Domino’s í Flatahrauni í Hafnarfirði öðrum sneggri og báru sigur úr býtum. Að sigurlaunum fær allt starfsfólkið frí frá hefðbundnum störfum á Domino’s í kvöld.