Rithöfundurinn Helgi Jónsson hefur sent bókabúðum beiðni um að bækur hans í bókaflokknum Gæsahúð verði fjarlægðar úr hillum og teknar úr sölu. Vísir segist hafa heimildir fyrir þessu en ekki liggur fyrir af hverju höfundurinn biður um þetta.
Líkt og komið hefur fram á Nútímanum virðist innihald bókarinnar Gæsahúð fyrir eldri – Villi vampíra hafa komið foreldrum verulega á óvart.
Sjá einnig: Villi vampíra tekin úr hillum á skólabókasöfnum, eitt safn tekur allar Gæsahúðarbækurnar úr umferð
Ef marka má umræður sem sköpuðust eftir að nokkrum blaðsíðum úr bókinni var deilt á Facebook í síðustu viku höfðu foreldrar ekki hugmynd um að börn og unglingar þeirra væru að lesa um unglingsdreng sem reynir að þvinga fjórtán ára stúlku til að stunda samfarir við sig.
Allar Gæsahúðarbækurnar voru teknar úr umferð á Bæjarbókasafni Ölfuss í kjölfarið. Ætlaði bókavörður að fara vandlega í gegnum þær og afskrá og henda í ruslið ef tilefni þætti til. Þá hafði bókin verið tekin úr umferð á nokkrum skólabókasöfnum á höfuðborgarsvæðinu.