Amma stúlku sem fékk ekki vegabréfið sitt með póstinum eins og lofað hafði verið brá á það ráð að fara heim til blaðberans og rukka hann um bréfið.
Pabbi blaðberans kom til dyra en í herbergi sonar hans leyndist vegabréfið ásamt öðrum pósti til fjölskyldunnar, þar á meðal jólakveðjur, ökuskírteini og boðskort.
Frá þessu er greint í Morgunblaðinu í dag en fréttin var upphaflega sögð í Fjarðarfréttum.
Stúlkan með fjölskyldu sinni á Völlunum í Hafnarfirði. Fjölskyldan var að fara saman í ferðalag til Frakklands og átti stúlkan að fá vegabréfið í gegnum póstlúguna eigi síðar en 25. febrúar. Daginn fyrir brottför, 3. mars, hafði vegabréfið ekki skilað sér og fengust þær upplýsingar hjá Þjóðskrá að það hefði farið í póst á réttum tíma.
Amma stúlkunnar var ekki ánægð með málavexti. Hún vann við póstburð á árum áður og tók málið í sínar hendur. Hún ræddi við starfsmann hjá Póstinum sem sakaði fjölskylduna á Völlunum um að vera með illa merkta lúgu.
Amman gafst ekki upp, tók mynd af póstlúgunni og sýndi starfsmanninum. Þá spurði starfsmaðurinn hvort hún hefði ekki lagað merkingarnar rétt í þessu. Ömmunni tókst að fá uppgefið hver það væri sem bæri út í hverfi stúlkunnar, fór heim til hans og þar leyndist vegabréfið.
Málið er enn til rannsóknar. Samkvæmt upplýsingum frá Brynjari Smára Rúnarssyni, forstöðumanni markaðsdeildar Íslandspósts, sagði bréfberinn að ekki hefði verið merking á hurð fjölskyldunnar og því hafi hann ákveðið að halda bréfinu. Búið hafi verið að loka dreifingarstöðinni eftir útburð þennan föstudag og því hafi hann sett óskilapóstinn í geymslu hjá sér yfir helgi.
Brynjar segir jafnframt mjög óeðlilegt að pabbi blaðberans hafi farið í póstinn hjá honum til að sækja bréf fjölskyldunnar.