Elva Björk Kristjánsdóttir er rúmlega tvítug og byrjar í offitu- og streitumeðferð á Heilsustofnun NLFÍ í Hveragerði í dag. Þar verður hún í sex vikur og ætlar að leyfa fylgjendum sínum á Snapchat (elvakristjans) að fylgjast með dvölinni þar.
Það er nefnilega ekki á hverjum degi sem fólk á þessum aldri fer í offitumeðferð og vonast Elva til þess að geta veitt innsýn inn lífið í Hveragerði ásamt því að vera öðrum fyrirmynd á leið sinni til heilbrigðari lífs.
Elva segist í samtali við Nútímann hafa verið í yfirþyngd frá því að hún man fyrst eftir sér og hefur hún prófað ýmislegt í von um að léttast. Það var þó ekki fyrr en hún fór til kvensjúkdómalæknis í fyrra og fékk þau skilaboð að það yrði auðveldara fyrir hana að verða ófrísk ef hún myndi létta sig að hún fór að gera eitthvað í sínum málum fyrir alvöru.
„Ég hef prófað margt til að léttast. Prófaði Herbalife þegar ég var yngri en nennti ekki að borða það og fannst miklu skemmtilegra að borða eitthvað óhollt. Svo fékk ég matarplan og æfingaplan frá frænku minni sem er einkaþjálfari, fór eftir matarplaninu í eina viku og missti sjö kíló en hélt áfram að æfa heilt sumar. Svo nennti ég því ekki lengur. Ég vissi alveg hvað var hollt og hvað var óhollt en kunni ekki að borða rétt,“ segir Elva.
Þegar Elva hafði ekki farið á túr í tíu vikur í fyrra leitaði hún til kvensjúkdómalæknis. Hún var búin að taka óléttupróf og það var neikvætt. „Mig hefur langað að eignast börn frá því að ég man eftir mér og hafði áður farið til kvensjúkdómalæknis vegna sama vandamáls. Hann sagði mér að það væri ekkert hægt að gera og ég ætti bara að taka hormónatöflur til að koma blæðingunum af stað,“ segir Elva.
Læknirinn sem hún fór til í fyrra gerði aftur á móti ómskoðun á henni og greindi hana með PCOS, eða fjölblöðrueggjastokkaheilkenni. Hann sagði að hún væri líklega einnig með legslímuflakk.
„Ég hafði ekki hugmynd um hvað það væri en hann sagði mér að ég gæti líklegast ekki eignast börn nema með hjálp. Það væri hins vegar líklegra að ég gæti það ef ég myndi létta mig. Ég hágrét þegar ég kom út frá þessum lækni, fór í vinnuna en var send heim af því að ég grét svo mikið,“ segir Elva.
Börnin sögðu henni daglega að hún væri rosalega feit
Á þessum tíma var hún að vinna á leikjanámskeiði í Hafnarfirði og var oft með börnunum í fótbolta og öðrum íþróttum í íþróttahúsinu. Hún var alltaf í marki þar sem hún hafði ekki orku í að hlaupa um með börnunum.
„Þar heyrði ég líka daglega frá nokkrum börnum að ég væri rosalega feit. Mér var slétt sama um það sem þau sögðu, af því að mér leið vel að borða allt súkkulaðið og nammið og kexið og allan sykur sem ég komst í, alveg þangað til að ég þurfti að svara þeim til baka,“ segir Elva.
Hún var einnig stuðningsfulltrúi barns sem var á leikjanámskeiðinu og þurfti barnið mikla athygli. „Ég þurfti að hlaupa á eftir barninu allt daga, upp og niður stiga og hafði enga orku í það. Móðir barnsins bað verkefnastjórann um að barnið fengi vinsamlegast stuðningsfulltrúa sem væri í betra formi til að elta hann og fylgjast með honum,“ útskýrir Elva og segir að þetta hafi verið kornið sem fyllti mælinn, nú þyrfti hún að gera eitthvað í sínum málum.
Hún leitaði til læknis sem benti henni á Reykjalund og Heilsustofnunina í Hveragerði. „Ég hafði bara heyrt frá eldra fólki að það færi í Hveragerði og ég var alls ekki hluti af þeim hópi. Ég kynnti mér þetta aðeins nánar og þá kom í ljós að allir geta farið í Hveragerði,“ segir Elva. Hún ákvað því að sækja um að komast í offitu- og streitumeðferð á Heilsustofnuninni.
Mun fara í leirböð, göngutúra og ræða við næringarfræðing í Hveragerði
Seinna um sumarið talaði hún við yfirmanninn á leikjanámskeiðinu og sagði henni að hún vildi gera eitthvað í sínum málum og væri tilbúin að breyta sínum lífsstíl. Hún kynnti Elvu fyrir Crossfit sem skráði sig strax á grunnnámskeið og í lok sumars byrjaði Elva síðan að nota Herbalife.
„Það var svo í desember að ég kíki á vinnupóstinn minn og þar sé ég póst sem var ekki með neinni efnislýsingu. Ég ákvað samt að skoða hann og þar var bara eitt viðhengi. Loksins fékk ég staðfestingu á því að ég kæmist inn í Hveragerði og ég fór strax að telja niður. Ég var byrjuð að breyta mataræðinu og hef misst átta kíló frá því að ég fór að taka mig á,“ segir Elva.
Hún segist ekki vera viss um að hún væri tilbúin að fara í Hveragerði núna ef hún hefði ekki strax byrjað á því að breyta mataræðinu og hugsunarhættinum í ágúst á síðasta ári.
„Ég hef trú á því að Heilsustofnunin í Hveragerði eigi eftir að breyta lífi mínu til hins betra. Ég ætla að nýta allt sem ég get fengið og fara í það. Ég mun fara á fullt af námskeiðum, fæ sjúkraþjálfa, lækni, næringarfræðing, sálfræðing, leirböð, sund, vatnsleikfimi, göngur, kamilluböð og fleiri böð, góðan og hollan mat og svo mætti lengi telja,“ segir Elva.
Hægt verður að fylgjast með henni í gegnum Snapchat en notendanafn Elvu er elvakristjans.
„Ég ákvað að opna Snapchat-aðganginn minn til þess að vera fyrirmynd fyrir ungt fólk sem er í sömu stöðu og ég og langar að breyta sínum lífsstíl. Fólk getur einnig leitað til mín til að fá svör við spurningum sínum. Ég er mjög spennt að fá fólk á Snapchat hjá mér og ég er viss um að ef enginn væri að fylgjast með mér, þá myndi ég svindla. Þannig að þetta er líka áskorun fyrir mig. Svo held ég að fullt af fólki viti ekkert hvað þetta er og langi að fá smá innsýn inn í Hveragerði,“ segir Elva.